Rétt fyrir þinglok var samþykkt nokkuð umfangsmikil breyting á nokkrum lagabálkum er viðkom eignarráðum og nýtingu fasteigna.
En breytingar voru gerðar á jarðalögum, lögum um menningarminjar, lögum um skráningu og mat fasteigna og lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna. Frumvarpið sem lagt var fram að Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra var afrakstur stýrihóps frá árinu 2020 um heildstæða löggjöf og stjórnsýslu varðandi jarðir, land og aðrar fasteignir. Frumvarpið var lagt fram í mars en nokkuð umfangsmikil breyting er varðar erlent eignarhald fasteigna var gerð degi áður en frumvarpið var samþykkt.
Lög nr. 19/1996 um eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum á Íslandi setja öðrum en íslenskum aðilum ströng skilyrði til þess að öðlast slík réttindi. Dómsmálaráðherra er heimilt að veita undanþágur að ákveðnum skilyrðum uppfylltum en EES-aðilar eru undanþegnir þessum ströngu skilyrðum, en þó má herða réttindi EES-aðila með reglugerð.
Í 11. gr. frumvarpsins var gert ráð fyrir að þegar í hlut áttu lögaðilar sem hyggðust kaupa fasteign hér á landi verði þeir ekki einungis að hafa staðfestu á Íslandi eða í EES-ríki sem talið er upp í lögunum, heldur verði þeir einnig að vera undir yfirráðum einstaklinga eða lögaðila frá viðkomandi ríkjum. Markmið ákvæðisins var að koma í veg fyrir að lögaðilar innan EES sem eru undir yfirráðum annarra en EES-aðila gætu hagnýtt sér undanþágureglu laganna, t.d. með því að fjárfesta í fasteign hér á landi gegnum félag innan EES og sniðgengið þannig skilyrði laga fyrir eignarhaldi erlendra aðila yfir fasteignum.
Þann 14. júní eða daginn áður en frumvarpið var samþykkt var lögð til breytingartillaga þar sem framangreind 11. grein var fjarlægð úr frumvarpinu, meðal annars með vísan til umsagnar sem barst frá lögmannsstofunni BBA//FJELDCO.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjastatölublaði Viðskiptablaðsins.