Við höfum verið að skoða markaðina í Svíþjóð og Bandaríkjunum. Ástæðan er að þar er mikið af hávaxtafyrirtækjum. Flest fyrirtæki á íslenska markaðnum eru verðmetin út frá arðsemi,“ segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis í viðtali við Viðskiptablaðið.
Stjórnendur Kerecis hafa slegið fyrirhugaðri skráningu á frest vegna markaðastæðna en vonast til að skrá félagið á markað síðar líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku.
„Á Nasdaq markaðnum í Bandaríkjunum og á sænska markaðnum er mikið af hávaxtafyrirtækjum sem verðmetin eru út frá vexti. Við höfum talið að íslenski markaðurinn henti okkur síður. En nú hefur verið mikið rætt um að skrá eigi Alvotech á íslenska markaðinn. Það verður gaman að sjá hvernig hann tekur hávaxtafyrirtæki sem verður væntanlega verðmetið út frá væntum framtíðartekjum en ekki hagnaði gærdagsins. Kannski verður þá til vísir að rými af íslenska markaðnum fyrir hávaxtafyrirtæki og ef svo verður þá hugsanlega endurskoðum við afstöðu okkar til skráningar á Íslandi," segir Guðmundur.
Sjá einnig: Amazon toppur heimsótti Ísafjörð
Til stendur að skrá íslenska líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech á Nasdaq markaðinn í Bandaríkjunum með samruna við sérhæfða yfirtökufélagið Oaktree Acquisition Corp. II í Bandaríkjunum samhliða því að félagið verður skráð á First North markaðinn hér á landi á fyrri hluta þessa árs.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .