Skúli Skúlason stjórnarformaður flugfélagsins Play sem er í burðarliðnum vill ekki tjá sig um keppinautana í Icelandair að öðru leyti en því að óska félaginu alls hins besta í þeirri endurskipulagningu sem nú sé í gangi þar og fjallað er um annars staðar í Viðskiptablaði vikunnar.

Hann segir aðgang að flugvélum á markaðnum nú það góðan að hægt væri að koma flugsamgöngum við landið hratt og vel í gang á ný ef þess þyrfti. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um stefnir félagið að því að hefja flug í haust og miðar Skúli við októbermánuð ef kórónuveirufaraldurinn þróast í jákvæða átt.

„Auðvitað hefur allt aðdraganda, en hæglega gætu menn verið komnir með 6 til 8 vélar strax í haust og 10 til 15 vélar næsta sumar ef þyrfti. Landslagið á flugvélaleigumarkaði hefur breyst mjög mikið á síðastliðnum tveimur eða þremur mánuðum og kjörin allt önnur í dag en bara síðustu áramót, enda fleiri þúsund vélar orðnar heimilislausar. Í dag er hægt að leigja vélar þannig að þú borgar bara flogna flugstund og jafnvel mjög hagstæð kjör á öllum ábyrgðum og öðru," segir Skúli.

„Við erum eingöngu að horfa á Airbus vélar, við höfum ekki einu sinni verið að kynna okkur kjörin hjá keppinautunum í Boeing, enda er 320 fjölskyldan sú sem hentar best í það leiðarnet sem við horfum til, sem er svipað og Icelandair hefur verið með og Wow var með. Hvort sem það er New York, Boston, Baltimore, Toronto eða Montréal í NorðurAmeríku eða staðir í Evrópu eins og Kaupmannahöfn, Berlín, Amsterdam, London og París auk vinsælla ferðamannastaða eins og Alicante og Tenerife þá henta þessar vélar mjög vel miðað við fjölda farþega, eldsneytisbrennslu og drægni," segir Skúli.

„Ef við horfum á nýlegri vélar með bestu nýtinguna þá sögðu menn fyrir áramót „talið við okkur árið 2025", en í dag er hægt að fá glænýjar vélar af færibandinu hjá Airbus. Þar hafa skapast möguleikar sem við erum að vinna í og skoða að kaupa vélar á hagstæðu verði."

Skúli segir aðalatriði nú fyrir félagið að flýta sér ekki of hratt og byrja of snemma að fljúga.

„Þá fyrst fara menn að brenna peningum, en eins og staðan er í dag erum við í sjálfu sér ekki að missa af miklu að vera ekki byrjaðir að fljúga. Fjöldi flugfélaga um allan heim er að glíma við langvarandi erfiða fjárhagsstöðu, skuldir og annað og það verður alltaf að vera mat hvort það sé þess virði að bjarga flugfélögum líkt og öðrum rekstri. Fjöldi félaga á eftir að fara í þrot á næstu misserum, svo þetta ástand sem verið hefur hér undanfarna mánuði er ekki að þrýsta neitt á okkur."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .