Ingólfur Árnason, stofnandi og fyrrverandi forstjóri Skagans 3X, gaf eftir kröfu að fjárhæð 555 milljónir króna á hendur félaginu við sölu á 40% eftirstandandi hlut þess til þýska félagsins Baader í febrúar á þessu ári.

Þetta kemur fram í ársreikningi Skagans 3X Holding, samstæðufélags Skagans 3X, fyrir síðasta ár. Krafan var í eigu I.Á-hönnunar ehf., sem Ingólfur á ásamt eiginkonu sinni, Guðrúnu Agnesi Sveinsdóttur.

Söluhagnaðurinn nam 2,5 milljörðum

Haustið 2020 var tilkynnt um kaup Baader á 60% hlut í Skaganum 3X af I.Á.-hönnun sem var þá að fullu í eigu hjónanna Ingólfs Árnasonar, stofnanda Skagans 3X, og Guðrúnar Agnesar Sveinsdóttur. Í ársreikningi I.Á.-hönnunar kemur fram að söluhagnaður vegna sölu á Skaganum 3X hafi numið tæpum 2,5 milljörðum króna.

Í desember í fyrra var svo sagt frá því að Ingólfur væri hættur sem forstjóri Skagans 3X og tveimur mánuðum síðar, eða í febrúar á þessu ári, eignaðist Baader eftirstandandi 40% hlut I.Á-hönnunar í félaginu. Þrátt fyrir að síðari hlutinn hafi skipt um hendur á árinu 2022, var hann að fullu færður til bókar í ársreikningi síðasta árs.

„Við sölu á eftirstæðum hlut til Baader gáfu seljendur eftir kröfu að fjárhæð 555,2 millj.kr.,“ segir í ársreikningi Skagans 3X Holding.

Það má því ætla að Ingólfur og Guðrún Agnes hafi gefið eftir rúmlega hálfs milljarðs króna lán til félagsins við afhendingu á 40% eftirstandandi hlut félagsins í Skaganum 3X.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 1. desember.