Gengi lyfja­fyrir­tækisins Al­vot­ech lækkaði um 11,76 % í 76 milljón króna við­skiptum, rétt fyrir klukkan 10 í morgun.

Gengið stendur nú í 900 krónum en dagsloka­gengið í gær var 1020 krónur. Gengið stóð í hæst í 2050 krónum 28. febrúar síðast­liðinn. Gengi Alvotech hefur lækkað um 39,86% árinu.

Eins og Við­skipta­blaðið greindi frá í gær­kvöldi ákvað Mat­væla- og lyfja­eftir­lit Banda­ríkjanna (FDA) ekki að af­greiða um­sókn Al­vot­ech um markaðs­leyfi fyrir AVT02, sem jafn­framt inni­heldur gögn sem styðja út­skipti­leika við Humira lyfið.

Kanna fjármögnunarleiðir

Al­vot­ech greindi frá því í gær­kvöldi að fyrir­tækið hyggist endur­nýja um­sóknina um markaðs­leyfið, með þeim gögnum sem styðji út­skipti­leika við Humira. Lyfja­eftir­litinu beri að af­greiða endur­nýjaða um­sókn innan sex mánaða frá því að hún sé mót­tekin.

Vegna fyrir­séðra tafa á markaðs­setningu AVT02 í Banda­ríkjunum, í ljósi niður­stöðu FDA, muni Al­vot­ech hefja undir­búning fjár­mögnunar til að standa straum af kostnaði við rann­sóknar- og þróunar­verk­efni fé­lagsins á næstu mánuðum. Fé­lagið vinni nú að þróun 10 líf­tækni­lyfja­hlið­stæða, auk AVT02.

Fjár­mögnunar­leiðir sem kannaðar verða séu meðal annars hluta­bréfa­út­gáfa, sala á breyti­legum skulda­bréfum eða önnur tegund láns­fjár­mögnunar. ATP Holdings ehf., dóttur­fé­lag Aztiq sem er stærsti hlut­hafi Al­vot­ech, hafi lýst yfir við Al­vot­ech að það geri ráð fyrir að leggja fram allt að 13.600 milljónir króna (eða jafn­virði 100 milljóna dala) sem hluta af þeirri fjár­mögnun.