Gengi Alvotech hefur hækkað tæp 7% frá opnun markaða í um 100 milljón króna viðskiptum.
Gengið hefur hækkað um tæp 34% siðastliðinn mánuð eftir högg í lok júní þegar Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) neitaði að afgreiða umsókn fyrirtæksins fyrir markaðsleyfi á fyrirhugaðri líftæknilyfjahliðstæðu með útskiptileika við Humira.
Fór gengi Alvotech niður í 958 krónur þann 29. júní sl. en stendur nú í tæpum 1435 krónum, þegar þetta er skrifað. Gengið er þó rúmlega 4% lægra en það var í upphafi árs.
Gengi Alvotech tók aftur við sér eftir sölu fjárfestingafélagsins Aztiq, aðaleiganda Alvotech, á tæplega tuttugu prósenta eignarhlut í samheitalyfjafyrirtækinu Lotus. Nokkrum dögum áður lofaði Róbert Wessmann forstjóri Alvotech að Aztiq myndi leggja Alvotech til meira fé til mæta að rannsóknar og þróunarkostnaði.
Samstarf og skuldabréfaútboð
Fyrr í dag var tilkynnt að Alvotech og Teva Pharmaceuticals, bandarískt dótturfélag Teva Pharmaceutical Industries Ltd. væru auka samstarf sitt og mun Teva koma að undirbúningi fyrir væntanlega úttekt FDA á framleiðsluaðstöðu Alvotech.
Þá ákvað Alvotech að fara í lokað útboð til hæfra fjárfesta á víkjandi skuldabréfum með breytirétti yfir í almenn hlutabréf.
Skuldabréf í íslenskum krónum eða Bandaríkjadollurum eru í boði að andvirði að minnsta kosti 100 milljónir Bandaríkjadollara, eða um 13 milljarðar íslenskra króna á núverandi gengi.
Teva fjárfesti jafnframt í víkjandi skuldabréfum Alvotech með breytirétti í hlutabréf, að andvirði 5,2 milljarðar króna miðað við núverandi gengi (40 milljónir Bandaríkjadala).
Samkomulag Alvotech og Teva felur einnig í sér aukna þátttöku Teva í undirbúningi fyrir væntanlega úttekt FDA á framleiðsluaðstöðu Alvotech, og er starfsfólk Teva til staðar til að veita ráðgjöf varðandi gæðaeftirlit og framleiðslu.