Hlutabréfaverð bandarísku smávöruverslanakeðjunnar Bed Bath & Beyond (BBBY) hríðlækkaði við opnun markaða í dag. Gengi bréfa félagsins hefur lækkað um 21%, farið úr 12 dölum á hlut niður í 9,5 dali á hlut.
BBBY er með nýjustu jarmhlutabréfunum (e. Meme stock) á bandaríska hlutabréfamarkaðnum. Gengi bréfa félagsins fjórfaldaðist í ágúst, fór úr 5,77 dölum á hlut upp í rúma 23 dali á hlut þegar best lét. Hækkunin var tilkomin vegna kaupa áhugafjárfesta í stórum stíl. Umræddir fjárfestar tengjast undirvefsíðunni /Wallstreetbets á samfélagsmiðlinum Reddit.
Mikil skortsstaða var í fyrirtækinu og myndaðist svokallað „short squeeze“. Þá þurftu fjárfestar sem tóku skortsstöðu að kaupa bréfin aftur, sem skapaði aukna eftirspurn og leiddi til hækkunar á gengi bréfanna.
Sjá einnig: Nýjasta jarmhlutabréfið
Félagið tilkynnti í morgun að það hefði tryggt sér meira en 500 milljón dala fjármögnun, þar af 375 milljón dala lán frá Sixth Street Partners. Það ætli auk þess að hagræða í rekstri með því að loka búðum og láta hluta starfsfólksins fara, að því er kemur fram í grein hjá CNBC.
Rekstur Bed Bath & Beyond hefur gengið erfiðlega á síðustu misserum og hefur velta félagsins dregist saman. Félagið er einnig að leita af nýjum forstjóra eftir að Mark Tritton hætti hjá félaginu í júní.
Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum hagnaðist Jake Freeman, tvítugur háskólanemi, um 15 milljarða króna er hann seldi alla hluti sína í BBBY.