Gengi útgerðarfélagsins Brim hefur fallið um 5,30% í dag í 367 milljón króna viðskiptum það sem af er degi. Gengið hefur nú fallið um tæp 10% á árinu og 18% síðastliðið ár.
Í árshlutauppgjöri félagsins sem birtist í gær kom fram að útgerðarfélagið hagnaðist um 10,4 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi, eða sem nemur tæplega 1,5 milljörðum króna á gengi dagsins.
Til samanburðar hagnaðist Brim um 22,5 milljónir evra á öðrum fjórðungi 2022. Vörusala félagsins dróst saman um 26,6% á milli ára og nam 109 milljónum evra á fjórðungnum eða um 15,6 milljörðum króna.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, sagði í uppgjörinu að afkoma af rekstri Brims það sem af er þessu ári væri viðunandi.
Aðstæður séu engu að síður krefjandi og ýmis teikn á lofti um að herða þurfi róðurinn.
„Þegar horft er um öxl sést að hagnaður á öðrum fjórðungi er sá þriðji mesti í a.m.k. áratug. Aðeins í fyrra og hitteðfyrra var hann meiri. Þá sjáum við einnig að hagnaður á fyrri helmingi árs hefur aðeins einu sinni verið meiri en það var í fyrra þegar uppsjávarafurðir voru seldar í óvenjumiklu magni,“ segir Guðmundur í uppgjörstilkynningu.