Hlutabréf breska áfengisframleiðandans Diageo hafa fallið um meira en 9% í fyrstu viðskiptum eftir opnun kauphallarinnar í London í morgun. Félagið greindi í morgun frá samdrætti í sölu á síðasta rekstrarári en þetta er í fyrsta sinn sem sala áfengisframleiðandans dregst saman frá árinu 2020.
Sölutekjur félagsins á síðasta fjárhagsári, sem lauk 30. júní sl, drógust saman um 1,4% milli ára og námu 20,3 milljörðum dala. Sala í magni féll um 4% milli ára sem er rakið til þess að eftirspurn neytenda eftir dýrara áfengi hefur minnkað að undanförnu.
„Við erum í afar óvenjulegu neytendaumhverfi,“ sagði forstjórinn Debra Crew,“ á uppgjörsfundi í morgun. „Maður sér að viðvarandi verðbólga er virkilega farin að vega þungt á neytendur og veskin þeirra.“
Diageo sagði í uppgjörinu að þetta krefjandi rekstrarumhverfi muni sennilega halda áfram á yfirstandandi fjárhagsári, sem lýkur í júní 2025. Félagið gaf ekki upp áætlun um söluþróun á yfirstandandi fjárhagsári, að því er segir í frétt Financial Times.
Rekstrarhagnaður Diageo jókst um 8,2% milli ára en á samanburðarhæfum grunni féll rekstrarafkoman um 4,8% milli ára og var undir spám greiningaraðila.
Meðal vörumerkja sem tilheyra Diageo eru Johnnie Walker, Tanqueray, Smirnoff, Baileys, Captain Morgan og Guinness.