Hlutabréfaverð Inditex, móðurfélags tískurisans Zara, hækkaði um rúm 9% í spænsku Kauphöllinni eftir að félagið birti ársuppgjör fyrir opnun markaða í gær.
Í uppgjöri Inditex, sem einnig á Bershka og Pull & Bear, kemur fram að sölutekjur jukust um 10,4%milli ára og námu 35,9 milljörðum evra sem samsvarar um 5.331 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.
Rekstrarhagnaður fyrir skatta og afskriftir hækkaði um 28% milli ára og nam 6,9 milljörðum evra sem samsvarar rúmum 1.000 milljörðum íslenskra króna.
Í uppgjörinu kom einnig fram að eftirspurn eftir vor- og sumarlínum fyrirtækisins væri í hámarki.
Fyrirtækið rekur 5.700 verslanir á heimsvísu en í uppgjörinu segir að netverslun hafi aukist til muna milli ára. Þá vinnur félagið að því að tæknivæðast meðal annars með því að koma upp sjálfsafgreiðslukössum í verslunum Zara.