Hlutabréf Íslandsbanka hækkaðu um 0,91% við lokun Kauphallarinnar í dag og nam velta bankans 157 milljónir króna. Hlutabréfaverð bankans er nú 111 krónur á hvern hlut.
Viðskiptablaðið greindi frá því í morgun að gengi Íslandsbanka hafi hækkað eftir að Birna Einarsdóttir tilkynnti að hún myndi láta af störfum sem bankastjóri. Gengi bankans hafði þá hækkað um 3,64% í 43 milljóna króna viðskiptum eftir að hafa lækkað töluvert dagana þar á undan, eða eftir að sátt Íslandsbanka og FME var tilkynnt.
Arion banki hækkaði einnig um 1,18% með 228 milljóna króna veltu og Brim hækkaði um 0,75%.
Hlutabréf Alvotech lækkuðu hins vegar um 2,86% og nam velta félagsins 136 milljónir króna. Hlutabréfaverð þess er nú 1.020 krónur á hvern hlut og hefur lækkað töluvert undanfarinn mánuð en gengið stóð í 1.180 krónum þann 30. maí.
Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,63% og er hlutabréfaverð hennar 2.252 krónur á hvern hlut.