Gengi nýjasta jarmhlutabréfsins (e. meme stock), Bed, Bath & Beyond (BBBY), lækkaði um rúmlega 40% á föstudag. Hlutabréfin hafa svo haldið áfram að lækka í framvirkum viðskiptum fyrir opnun markaða, eða um tæplega 11%.

Í byrjun ágúst var gengi bréfa félagsins um 5 dalir á hlut en tók í kjölfarið að hækka verulega og var gengið komið upp í ríflega 23 dali á hlut er best lét. Hækkunin var tilkomin vegna kaupa áhugafjárfesta í stórum stíl. Umræddir fjárfestar tengjast undirvefsíðunni /Wallstreetbets á samfélagsmiðlinum Reddit.

Sjá einnig: Nýjasta jarmhlutabréfið

Mikil skortsstaða var í fyrirtækinu og myndaðist svokallað „short squeeze“. Þá þurftu fjárfestar sem tóku skortsstöðu að kaupa bréfin aftur, sem skapaði aukna eftirspurn og leiddi til hækkunar á gengi bréfanna.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum hagnaðist Jake Freeman, tvítugur háskólanemi, um 15 milljarða króna er hann seldi alla hluti sína í BBBY.