Gengi bréfa Síldarvinnslunnar hefur ekki verið hærra frá skráningu félagsins síðasta sumar, en gengið stendur í 123,5 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar hækkaði um 2,9% í 516 milljóna króna viðskiptum dagsins og hefur hækkað um 90% frá skráningu.

Heildarvelta í Kauphöllinni nam 3,3 milljörðum króna, en úrvalsvísitalan hækkaði um 0,6%. Í lok dags hafði hlutabréfaverð níu skráðra félaga hækkað í viðskiptum dagsins en átta félög lækkuðu.

Gengi bréfa SKEL fjárfestingafélags hækkaði um 2,3% í óverulegum viðskiptum í dag. Arion og Íslandsbanki auk tryggingafélaganna VÍS og Sjóvá hækkuðu öll umfram eitt prósent í dag. Mest velta var með bréf Brims sem lækkuðu um tvö prósent í dag, en viðskipti með bréfin námu 640 milljónum króna.

Á First North markaðnum lækkaði gengi Play um 2,4% í 15 milljón króna viðskiptum. Hlutabréfaverð Alvotech lækkaði einnig um 1,2% í 4 milljón króna veltu. Þá hækkaði gengi bréfa Kaldalóns um 1,6% í 18 milljóna viðskiptum.