Upplýsingar um starfslokagreiðslur Íslandsbanka til Birnu Einarsdóttur, sem lét af störfum sem bankastjóri í nótt, munu koma fram í uppgjöri bankans.

Starfslokagreiðslur munu vera samkvæmt ráðningarsamningi og lögum. Þetta kemur fram í svari Íslandsbanka við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um fyrirkomulag starfslokagreiðslna.

Greint var frá því í morgun Birna Einarsdóttir myndi hætta sem bankastjóri Íslandsbanka og við tæki Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri bankans. Birna hafði óskað eftir og gert samkomulag um starfslok hennar við stjórn bankans.

Ekki kemur fram berum orðum hvenær ákvörðunin tekur gildi, en ætla má að Jón Guðni mun samhliða nýja hlutverkinu áfram starfa sem fjármálastjóri bankans þar til gengið hefur verið frá ráðningu í þá stöðu, sem hann hefur gegnt frá árinu 2011.