Samkvæmt tölum Hagstofunnar hafa skráðar gistinætur í maí aldrei verið fleiri. Gistinætur í þeim mánuði voru 684.600 sem er um 23% aukning frá fyrra ári þegar þær voru 557.700. Fjöldi gistinátta sló einnig metárið 2018 þegar þær voru 605.800.
Mest munar þar um aukningu í fjölda gistinátta Íslendinga, eða 73%, en fjölgunin í erlendum gistinóttum frá maí 2018 var 4%.
Gistinætur erlendra ferðamanna í maí voru um 81% gistinátta, eða um 551.500, sem er 26% aukning frá fyrra ári. Gistinætur Íslendinga voru hins vegar 133.100 sem er 11% aukning frá fyrra ári. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 530.000 og um 155.000 á öðrum tegundum skráðra gististaða. Áætlaður fjöldi erlendra gistinátta í heimagistingu utan hefðbundinnar gistináttaskráningar í maí var um 110.000.
Hótelgisting jókst í öllum landshlutum samanborið við maí 2022 og voru gistinætur erlendra ferðamanna 333.200, eða 81% af hótelgistinóttum, á meðan gistinætur Íslendinga voru 77.300, eða 19%.
Framboð hótelherbergja í maí var svipað og í maí 2022, á meðan herbergjanýting á hótelum var 66,0% og jókst um 12,3 prósentustig frá fyrra ári.