Gjaldþrotaskiptum er lokið á þrotabúi VBS fjárfestingarbanki hf., en nafni félagsins var breytt í VBS eignasafns hf. Þetta kemur fram í Lögbirtingarblaðinu.
Alls fengust 7,5 milljarðar króna upp almennar kröfur en þær námu 45,8 milljörðum króna. Einnig fengust 600 milljónir króna upp í Búskröfur og forgangskröfur.
Stærsti kröfuhafi bankans var Seðlabanki Íslands.
Fékk 26,4 milljarða króna lán frá ríkissjóði
Viðskiptablaðið fjallaði ítarleglega um björgunartilraun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur á VBS fjárfestingabanka.
VBS Fjárfestingarbanki fékk 26,4 milljarða króna lán frá ríkissjóði Íslands í mars 2009. VBS núvirti 9,4 milljarða króna af láninu og færði afturvirkt sem eign í ársreikningi sínum fyrir árið 2008.
Við þá æfingu varð eigið fé bankans jákvætt og hann keypti sér aukinn líftíma. Íslenska ríkið hafði áður keypt kröfur á VBS af Seðlabanka Íslands en tilurð þeirra var vegna veðlánaviðskipta við bankann.
Þessi háttur, að framselja kröfuna fram og til baka, var hafður á vegna þess að Seðlabankanum var óheimilt að veita VBS eiginfjárfyrirgreiðslu. Það gat ríkissjóður hins vegar gert. Þegar búið var að klára lánveitinguna framseldi ríkissjóður síðan kröfuna aftur til Seðlabankans.
Björgunartilraunin mistókst og bankinn var úrskurðaður gjaldþrota árið 2015, eftir að hafa verið í slitameðferð frá árinu 2010.