Sigurður Orri Guðmundsson hefur tekið við sem framkvæmdastjóri nýsköpunarfyrirtækisins NeckCare. Félagið þróar og selur hugbúnað og vélbúnað sem gefur hlutlægt mat á hálsáverkum og verkjum í hálsi. Leiðir Sigurðar og NeckCare lágu fyrst saman fyrir rúmlega ári síðan er hann tók sæti í stjórn félagsins.
„Við kláruðum mikilvæga fjármögnun í byrjun sumars þar sem fjárfestar, með framtakssjóðinn Iðunni í broddi fylkingar, lögðu rúmlega milljarð króna inn í félagið. Í framhaldi af því leituðu Þorsteinn Geirsson, einn eigenda félagsins, og stjórn félagsins til mín til að kanna hvort ég hefði áhuga á að koma inn í félagið af auknum þunga. Ég þáði það boð með þökkum.“
Sigurður Orri segir fjármögnunina marka kaflaskil í vaxtarsögu NeckCare. Hún geri félaginu kleift að herja á sölu- og markaðssetningu á vörum sínum í Bandaríkjunum. „Við erum búin að opna skrifstofu og ráða fólk í Norður Karólínu og erum nú þegar byrjuð að vinna með þekktum aðilum í bandaríska heilbrigðiskerfinu. Það eru því afar spennandi tímar framundan hjá okkur.“
Nýja starfið markar einnig ákveðin tímamót í lífi Sigurðar Orra, þar sem hann hefur mest allan atvinnuferil sinn starfað erlendis. Lengst af starfaði hann hjá Siteimprove, bæði í Danmörku og í Bandaríkjunum. Félagið sérhæfir sig í að betrumbæta vef viðskiptavina sinna og gera hann aðgengilegri. „Ég bar m.a. ábyrgð á Bandaríkjamarkaði hjá Siteimprove og var með 130 manna sölu- og markaðsteymi þar. Við seldum fyrirtækið svo til Nordic Capital á tugi milljarða króna fyrir tveimur árum. Það var mikill skóli að taka þátt í söluferlinu og veitti mér dýrmæta reynslu.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.