Eigandi Íslenskrar erfðagreiningar, Amgen, lækkaði hlutafé félagsins um 70% og greiddi sér 4,3 milljarða út úr fyrirtækinu. Enn er þó til staðar nokkuð ríflegt borð fyrir báru.
Hlutafé Íslenskrar erfðagreiningar var lækkað um rúmar 750 milljónir króna að nafnvirði eða 70% með greiðslu hátt í 4,3 milljarða króna í byrjun desember, en félagið er alfarið í eigu móðurfélagsins Amgen.
Samhliða lækkuninni – sem var ígildi ríflega 30 milljóna Bandaríkjadala – var gjaldmiðli hlutafjárins breytt úr krónum í dali og er heildarhlutafé eftir breytingarnar sléttar 13 milljónir dala.
Umsvif félagsins drógust nokkuð saman árið 2021 sökum verkefnaþurrðar, en í lok þess árs nam eigið fé þess þó yfir 67 milljónum dala. Af þeim stendur því yfir helmingur eða ígildi 5,2 milljarða króna eftir, en inn í þá tölu vantar afkomu síðasta árs.
Fréttin birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudaginn, 5. janúar 2023.