Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði stýrivexti um 0,75 prósentur fyrir tveimur vikum, úr 4,75% í 5,5%. Í fundargerð nefndarinnar, sem birt var í gær, kemur fram að allir nefndarmenn hafi stutt tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um 75 punkta hækkun að Gylfa Zoëga undanskildum sem hefði fremur kosið að hækka vexti bankans um 1 prósentu.

Sjá einnig: Nauðsynlegt að fá jákvæða raunvexti

Um var að ræða fjórðu vaxtahækkun nefndarinnar í ár en alls hafa meginvextir bankans hækkað úr 2% í 5,5% frá ársbyrjun.

„Nefndin ræddi að líklegt væri að herða þyrfti taumhald peningastefnunnar enn frekar til að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. Peningastefnan myndi á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum myndu skipta miklu um hversu hátt vextir þyrftu að fara,“ segir í fundargerðinni.

Verðbólga hér á landi mældist 9,9% í júlí. Viku eftir að Seðlabankinn tilkynnti um vaxtahækkunina voru birtar nýjar tölur fyrir ágústmánuð en verðbólgan hjaðnaði niður í 9,7% í síðasta mánuði. Ásgeir fagnaði hjöðnun verðbólgunnar og lýsti síðustu mælingu Hagstofunnar sem áfangasigri.