Óvissa um alþjóðlegar efnahagshorfur er áfram mikil, að mati Seðlabanka Íslands. Efnahagsframvindan mun ráðast að miklu leyti af því hversu mikið fjármálaskilyrði versna og hvort frekari brotalamir í fjármálakerfi heimsins eigi eftir að koma fram í dagsljósið „í kjölfar nýlegra vandræða á alþjóðlegum bankamarkaði.“
Í nýbirtum Peningamálum, segir að fall tveggja meðalstórra bandarískra svæðisbanka sem og stórbankanum Credit Suisse í mars hafi skapað miklar áhyggjur en óvissa ríkti um smitáhrif atburðanna.
„Efnahagsframvindan mun einnig ráðast af þróun verðbólgunnar og áhrifum kostnaðarhækkana um allan heim á fjárhagslega stöðu heimila og fyrirtækja. Þá skiptir miklu máli hversu hratt heimili ganga á uppsafnaðan sparnað sinn frá farsóttartímanum. Horfur ráðast jafnframt af þróun og áhrifum stríðsátakanna í Úkraínu og hversu langvinn þau verða. Þá ríkir enn óvissa um orkuframboð í Evrópu fyrir komandi vetur þótt hún hafi vissulega minnkað,“ segir í Peningamálum SÍ.
SÍ leggur einnig áherslu á að efnahagsþróun í heiminum muni ráðast að miklu leyti af efnahagsframvindunni í Kína en þar hefur ekki enn verið undið ofan af veikleikum á innlendum fasteignamarkaði. Til viðbótar ríkir óvissa um stöðu ríkisfjármála í Bandaríkjunum og skuldaþaks bandaríska ríkisins.
„Þá er staða margra nýmarkaðsríkja áfram erfið í ljósi vaxtahækkana í Bandaríkjunum og sterkrar stöðu Bandaríkjadals, sérstaklega meðal ríkja með miklar skuldbindingar í Bandaríkjadal og brothættar efnahagslegar undirstöður. Hætta er því á að hagvaxtarhorfur í heiminum séu of bjartsýnar,“ segir í Peningamálum.
Alþjóðleg verðbólga að hjaðna
Verðbólga hefur aukist mun meira en almennt var spá frá 2021 um allan heim og vegur hækkandi orkuverð þar þyngst.
„Þótt verðbólga sé enn mikil í helstu viðskiptalöndum Íslands hefur hún minnkað á undanförnum mánuðum. Það skýrist að mestu leyti af hjöðnun orkuverðs sem hækkaði verulega í fyrra í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu.”
„Einnig er farið að hægja á árshækkun matvælaverðs sem er þó enn afar mikil. Auk þess hefur hægt á hækkun almenns vöruverðs á ný samhliða aðlögun í neyslumynstri heimila frá vörum og yfir í þjónustu eftir takmarkað aðgengi að ýmissi þjónustu í heimsfaraldrinum. Þá hefur dregið úr framleiðsluhnökrum og hrávöruverð lækkað sem einnig hægir á hækkunum vöruverðs. Það mun þó líklega taka einhvern tíma til viðbótar fyrir áhrifin að koma fram að fullu í verðlagi. Einkum hefur hægt á hækkun vöruverðs í Bandaríkjunum en þar hækkaði það líka bæði fyrr og meira á farsóttartímanum.”
„Mikil styrking Bandaríkjadals gagnvart mörgum öðrum gjaldmiðlum í fyrra vegur líklega einnig þungt í að halda aftur af hækkun þarlends innflutningsverðlags samanborið við önnur ríki.
Þrálátari hækkanir vöruverðs á evrusvæðinu og í Bretlandi má líklega jafnframt rekja til þess að miklar hækkanir orkuverðs í fyrra eru enn að koma fram í almennu vöruverði.”
Nafnlaunahækkanir halda spennu á vinnumarkaði
Seðlabankinn tekur fram að verðhækkanir á þjónustu hafi hins vegar lítið hjaðnað eða jafnvel sótt enn frekar í sig veðrið.
Uppsöfnuð eftirspurn frá farsóttartímanum, áframhaldandi spenna á vinnumarkaði og miklar nafnlaunahækkanir vega þar líklega þyngst. Er það meginástæða þess að undirliggjandi verðbólguþrýstingur hefur reynst þrálátari en almennt var búist við. Mældist kjarnaverðbólga, þ.e. verðbólga án beinna áhrifa orkuog matvælaverðs, 5,6% að meðaltali í viðskiptalöndum í mars sl.
Meðalverðbólga í viðskiptalöndum Íslands mældist 7,2% á fyrsta ársfjórðungi. Það er 1,4 prósentum minna en á fjórða ársfjórðungi í fyrra og 0,4 prósentum minna en spáð var í febrúar. Frávikið má rekja til hraðari hjöðnunar orkuverðs en bankinn bjóst við.
Dregið hefur úr ráðstöfunartekjum heimila
Landsframleiðsla í helstu viðskiptalöndum Íslands jókst að meðaltali um 0,2% milli fjórðunga á fjórða fjórðungi í fyrra. Það er talsvert minni vöxtur en var á fjórðungunum þar á undan.
„Hægari aukning efnahagsumsvifa skýrist að miklu leyti af áhrifum mikillar verðbólgu og hækkandi fjármagnskostnaðar sem dregið hefur úr ráðstöfunartekjum heimila, þrengt að fjármálalegum skilyrðum þeirra og haft neikvæð áhrif á eftirspurn.“
Hátt orkuverð og óvissa um orkuframboð í Evrópu í vetur hafði einnig neikvæð áhrif á efnahagsumsvif á fjórðungnum. Hagvöxtur gaf einkum eftir í Svíþjóð þar sem landsframleiðslan dróst saman um 0,5% frá fyrri fjórðungi.
Einnig var lítillegur samdráttur á evrusvæðinu en þar vó 0,5% samdráttur í Þýskalandi þungt. Í flestum öðrum viðskiptalöndum Íslands var jafnframt lítill eða enginn hagvöxtur á fjórðungnum. Þá hægði mikið á efnahagsumsvifum í Kína vegna mikillar fjölgunar COVID-19-smita í landinu.
Ágætur hagvöxtur mældist hins vegar í Bandaríkjunum og efnahagsumsvif jukust töluvert meira en búist var við í Danmörku og Noregi. Er það meginástæða þess að meðalhagvöxtur í viðskiptalöndunum var lítillega meiri á fjórða ársfjórðungi en gert var ráð fyrir í febrúarspá bankans
„Meðalverðbólga í viðskiptalöndum Íslands mældist 7,2% á fyrsta ársfjórðungi. Það er 1,4 prósentum minna en á fjórða ársfjórðungi í fyrra og 0,4 prósentum minna en spáð var í febrúar. Frávikið má rekja til hraðari hjöðnunar orkuverðs en þá var búist við. Mæld verðbólga mun því halda áfram að hjaðna en þrálátari undirliggjandi verðbólga vinnur á móti og gerir það að verkum að verðbólguhorfur versna er lengra líður á spátímann. Spáð er 2,6% verðbólgu í helstu viðskiptalöndum á næsta ári í stað 2,3% í febrúar og að hún verði ekki komin niður í 2% fyrr en á fyrri hluta ársins 2025 eða hálfu ári seinna en spáð var í febrúar.“
„Miklar áhyggjur sköpuðust um möguleg smitáhrif“
Fjármálaskilyrði versnuðu víða um heim í fyrra í takt við lakari efnahagshorfur, aukna óvissu og sögulega hraðar vaxtahækkanir helstu seðlabanka.
„Skilyrðin tóku hins vegar að batna á ný undir lok síðasta árs. Hélt sú þróun í meginatriðum áfram í upphafi þessa árs samhliða aukinni bjartsýni um að það takist að forðast almennan efnahagssamdrátt í þróuðum ríkjum í ár. Alþjóðlegt hlutabréfaverð rétti því úr kútnum, álag á áhættumeiri fjáreignir hjaðnaði og mikil styrking Bandaríkjadals í fyrra gekk að hluta til baka.“
„Fjármálaleg skilyrði versnuðu hins vegar snögglega og óvissa jókst í kjölfar falls tveggja meðalstórra bandarískra svæðisbanka og yfirtökunnar á svissneska stórbankanum Credit Suisse í mars sl. Miklar áhyggjur sköpuðust um möguleg smitáhrif atburðanna og hvort frekari brotalamir væru til staðar í fjármálakerfinu sem sett gætu fjármálastöðugleika í hættu.“
Áhyggjur Seðlabankans snerust mikið til að því hvort of mikil vaxtaáhætta hafi safnast upp hjá fjármálastofnunum á tímum lágra vaxta sem leiða muni til taprekstrar nú í ljósi herts peningalegs aðhalds. Þær snerust einnig um áhættu sem kynni að liggja hjá einstaka fjármálastofnunum vegna einsleitni innlánseigenda og hárrar hlutdeildar ótryggðra innlána. Traust á fjármálastofnunum minnkaði því í kjölfarið, einkum á minni og staðbundnari bönkum í Bandaríkjunum, með tilheyrandi lækkun hlutabréfaverðs og hækkun áhættuálags
Seðlabankar helstu iðnríkja hafa haldið áfram að herða á peningalegu aðhaldi sínu í ljósi þróttmeiri efnahagsumsvifa í upphafi þessa árs, áframhaldandi spennu á vinnumarkaði og þrálátari undirliggjandi verðbólgu.
„Hafa vextir þeirra ekki verið hærri síðan í aðdraganda fjármálakreppunnar árið 2008. Þeir hafa þó hægt á vaxtahækkunum sínum undanfarið eftir sögulega hraðar og miklar hækkanir í fyrra.“