Frá og með 15. ágúst nk. mun flugfélagið Korean Air hætta að bjóða upp á pakkanúðlur í almenna farrými sínu en flugfélagið segir að aukin hætta á ókyrrð, þröngir gangar og sætaskipan auki hættu á brunaslysum.

Farþegar sem sitja í fyrsta farrými munu hins vegar halda áfram að gæða sér á núðlunum.

Snarlið hefur lengi verið í uppáhaldi hjá farþegum og hafa margir hrósað Korean Air fyrir að bjóða upp á núðlurnar að kostnaðarlausu.

Mikil umræða myndaðist á samfélagsmiðlum í kjölfar ákvörðunarinnar og bentu sumir á að flugfélagið bjóði enn upp á mat sem gæti valdið brunasárum. Korean Air segist ætla að skipta núðlunum út fyrir samlokur, maíshunda, pizzur og Hot Pockets.

Í tilkynningu frá flugfélaginu segir að síðan 2019 hafi fjölda skipta sem ókyrrð á sér stað í flugi tvöfaldast. Ókyrrð í háaloftunum verður sífellt algengara vandamál vegna loftslagsbreytinga og jókst alvarleg ókyrrð yfir Atlantshafinu til að mynda um 55% frá 1979 til 2020.