Breski drykkjavöruframleiðandinn Brtivic tilkynnti í dag að hann hefði hafnað tveimur kauptilboðum frá Carlsberg Group. Seinni tilboðið hljóðaði upp á 3,1 milljarð punda eða hátt í 550 milljarða íslenskra króna.

Breski drykkjavöruframleiðandinn Brtivic tilkynnti í dag að hann hefði hafnað tveimur kauptilboðum frá Carlsberg Group. Seinni tilboðið hljóðaði upp á 3,1 milljarð punda eða hátt í 550 milljarða íslenskra króna.

Seinna tilboð Carlsberg hljóðaði upp á 1.250 pens á hlut í Britvic sem er 29% yfir dagslokagengi hlutabréfa breska félagsins þann 19. júní, sem er síðasti viðskiptadagurinn áður en upplýsingar um tilboðið láku til fjölmiðla. Fyrra tilboð Carlsberg var upp á 1.200 pens á hlut.

Hlutabréfaverð Britvic hækkaði um 7,3% í viðskiptum dagsins og stóð í 1.089 pensum við lokun markaða í dag. Gengi hlutabréfa Carlsberg lækkaði aftur á móti um 9,3% í dag.

Í tilkynningu Britvic til kauphallarinnar í London segir að stjórn félagsins og ráðgjafar þess hafi á undanförnum dögum lagst yfir seinna tilboð Carlberg og komist að þeirri niðurstöðu að það endurspegli ekki núverandi virði félagsins og framtíðarmöguleika þess.

Íhuga að leggja fram annað tilboð

Stjórn Carlsberg segist vera að meta valkosti sína eftir að stjórn Britvic hafnaði seinna tilboði sínu. Í kauphallartilkynningu Carlsberg kemur fram að ef það muni leggja fram annað tilboð þá yrði kaupverðið líklega alfarið greitt með reiðufé. Danski bjórframleiðandinn gerir ráð fyrir að fjármagna mögulega yfirtöku með lánsfé.

Í umfjöllun Reuters segir að Carlsberg horfi til þess að víkka úrval sitt, m.a. í vöruflokkum á borð við eplavín (e. cider) og tilbúnum kokteildrykkjum vegna aukinnar spurnar eftir drykkjum sem falla utan hefðbundinna bjórtegunda.