Í dag undirrituðu Hagar hf. og Reginn hf. sátt við Samkeppniseftirlitið um skilyrði fyrir kaupum á hlutafé í Klasa ehf. Í desember í fyrra var undirritaður samningur um áskrift að hlutafé í fasteignaþróunarfélaginu og var sú áskrift háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Þau skilyrði sem Hagar skuldbinda sig til að hlíta samkvæmt sáttinni eru eftirfarandi:

  • Tilkynningarskylda Haga til Samkeppniseftirlitsins vegna samninga um kaup eða leigu Haga á eignum undir dagvöruverslanir sem verða þróaðar og byggðar undir stjórn Klasa eða Regins.
  • Tilkynning skal berast Samkeppniseftirlitinu innan fimm virkra daga frá því að bindandi samningur kemst á milli aðila.
  • Högum er heimilt að óska eftir endurupptöku eða endurskoðun sáttarinnar að þremur árum liðnum frá framkvæmd samrunans.

Þann 24. september 2021 var tilkynnt um undirritun viljayfirlýsingar milli Reginns hf, Haga hf., Klasa ehf. og KLS eignarhaldsfélag ehf., núverandi eigenda Klasa ehf., um uppbyggingu og rekstur öflugs fasteignaþróunarfélags. Viljayfirlýsingin var m.a. gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Viðskiptin fela í sér samruna í skilningi 17. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, og undirritun sáttarinnar felur í sér að Samkeppniseftirlitið samþykkir viðskiptin með tilteknum skilyrðum sem fram koma í sáttinni, en skilyrðin lúta að tilkynningaskyldu Haga til Samkeppniseftirlitsins vegna samninga um kaup eða leigu Haga á eignum undir dagvöruverslanir sem verða þróaðar og byggðar undir stjórn Klasa eða Regins. Er skilyrðunum ætlað að tryggja að Samkeppniseftirlitið hafi yfirsýn yfir áhrif samrunans á stöðu Haga á dagvörumarkaði.

Samruninn kemur til framkvæmda á næstu vikum. Gert er ráð fyrir að fjárhagsleg áhrif viðskiptanna komi fram á 2. ársfjórðungi 2022/23, en áætluð áhrif vegna söluhagnaðar eigna á hagnað Haga eftir skatta eru um 750 milljónir kr.