Hagkerfi Indónesíu stækkaði þó nokkuð á fyrsta ársfjórðungi þessa árs vegna aukinnar innlendrar neyslu. Samkvæmt WSJ mældist hagvöxtur á fyrsta ársfjórðnugi um 5,11% á ársgrunni en sérfræðingar höfðu gert ráð fyrir 5,04% vexti.

Peningastefna ríkisstjórnarinnar og rýrnandi útflutningstölur hafa hins vegar vakið upp efasemdir um hvort núverandi vöxtur geti haldið áfram.

Þá dróst verg landsframleiðsla Indónesíu saman um 0,83% á fyrstu þremur mánuðum ársins. Lækkunin var þó minni en samstöðuspá HSBC Global Research gerði ráð fyrir, sem var 0,9%.

Amalia Adininggar Widyasanti, yfirmaður indónesísku hagstofunnar, segir að neysla og fjárfesting heimilanna, ásamt ríkisútgjöldum, hafi verið meðal helstu drifkrafta í þessari aukningu. Hún segir að tölurnar hafi verið í samræmi við greiningaraðila sem bjuggust við auknum útgjöldum í kringum kosningar og ramadan.

Innlend framleiðsla í landinu, sem samsvarar stærsta hluta hagkerfisins, jókst þá um 4,1% á fyrsta ársfjórðungnum á sama tíma og landbúnaðariðnaðurinn, sem er um 12% af landsframleiðslu Indónesíu, dróst saman um 3,5%.