Útgerðarfélagið Brim hagnaðist um 10,4 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi, eða sem nemur tæplega 1,5 milljörðum króna á gengi dagsins. Til samanburðar hagnaðist Brim um 22,5 milljónir evra á öðrum fjórðungi 2022. Vörusala félagsins dróst saman um 26,6% á milli ára og nam 109 milljónum evra á fjórðungnum eða um 15,6 milljörðum króna.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, segir afkomu af rekstri Brims það sem af er þessu ári vera viðunandi. Aðstæður séu engu að síður krefjandi og ýmis teikn á lofti um að herða þurfi róðurinn.
„Þegar horft er um öxl sést að hagnaður á öðrum fjórðungi er sá þriðji mesti í a.m.k. áratug. Aðeins í fyrra og hitteðfyrra var hann meiri. Þá sjáum við einnig að hagnaður á fyrri helmingi árs hefur aðeins einu sinni verið meiri en það var í fyrra þegar uppsjávarafurðir voru seldar í óvenjumiklu magni,“ segir Guðmundur í uppgjörstilkynningu.
„Til næstu missera litið eru hins vegar blikur á lofti. Framlegðin af starfseminni fer minnkandi. Veiðar og vinnsla uppsjávartegunda hefur verið nokkuð stöðug en niðurskurður aflaheimilda í bolfiski er farinn að bíta – aflinn er minni, það dregur úr hagkvæmni sem skilar sér í minni framlegð.“
Guðmundur segir aðstæður á alþjóðamörkuðum hafa áfram verið erfiðar á fyrri hluta ársins. Lægra verð á sjófrystum þorski og ýsu höfðu neikvæð áhrif á reksturinn og þá hafi verð á loðnuhrognum lækkað verulega frá síðasta ári.
Núverandi efnahagsumhverfi með mikilli verðbólgu og háum vöxtum þyngdu einnig róðurinn en fjármagnskostnaðurinn á fyrri hluta ársins meira en tvöfaldaðist á milli ára.
„Ljóst er að framundan eru tímar sem kalla á aðgát og aukið aðhald. Brim er öflugt félag sem stendur fjárhagslega sterkt og þolir ágjöf. Starfsfólk hefur marga fjöruna sopið og getur tekist á við breytingar og erfiðleika eins og vel hefur komið í ljós á síðustu árum. Við erum því full bjartsýni þó svo við búum okkur undir að syrt geti í álinn.“
Í tilkynningunni kemur fram að í kjölfar loðnuvertíðar hafi uppsjávarskip félagsins snúið sér að kolmunnaveiðum og landað 30 þúsund tonnum af kolmunna á öðum ársfjórðungi. Í lok fjórðungsins héldu uppsjávarskipin til makrílveiða og komu fyrstu makrílfarmarnir á land í lok júní.
Brim segir að bolfiskveiðar og -vinnsla hafi gengið vel að undanskildum veiðum á ufsa sem héldu áfram að valda vonbrigðum á öðrum ársfjórðungi eins og á þeim fyrsta. Afli bolfiskskipa félagsins var um 10.300 tonn á öðrum ársfjórðungi en var um 13.300 tonn árið áður.