Hagnaður Eimskips nam rúmum 12 milljörðum króna í fyrra og slétt tvöfaldaðist milli ára en tekjur námu 152 milljörðum og jukust um 15%. Í evrum var aukning enn meiri en hagnaðurinn nam 85 milljónum evra og jókst um 111% og tekjurnar tæpum 1,1 milljarði og jukust um ríflega fimmtung.
Í uppgjörstilkynningu félagsins til Kauphallarinnar segir að enn hafi dregið úr þeim truflunum á aðfangakeðjum heimsins sem hrjáð hafi greinina undanfarin ár. Það hafi dregið framlegð niður en á móti aukið umfang starfseminnar.
Tekjur síðasta ársfjórðungs námu 256 milljónum evra – sem félagið gerir upp í – og stóðu í stað milli ára en hagnaður nam 22 milljónum og jókst um 60% frá sama fjórðungi árið áður.
Áætlunarsiglingar og flutningsmiðlun sterk á fjórðungnum
Er fjórðungurinn sagður hafa verið sérstaklega sterkur í áætlunarsiglingum sem skiluðu tæplega 28 milljóna evra rekstrarhagnaði og bættu þar niðurstöðu fyrra árs um rúmar 9 milljónir evra eða tæp 50%. Flutningsmiðlun er einnig sögð hafa skilað góðri afkomu, upp á 10,6 milljóna evrur í rekstrarhagnað, í sögulegu samhengi.
EBITDA rekstrarhagnaður ársins jókst um 57% milli ára í fyrra og nam 163 milljónum evra eða 3,4 milljörðum króna miðað við meðalgengi ársins. Rekstrargjöld námu 772 milljónum evra, þar af 136 milljónum í launakostnað, sem gera 19% og 11% hækkun hvors liðar fyrir sig.
Eigið fé jókst um 18%
Heildareignir námu 667 milljónum evra eða rétt rúmum 100 milljörðum króna um síðustu áramót, eigið fé 309 milljónum evra. Eiginfjárhlutfall var því 46% og hækkaði um ríflega 5% milli ára, en eigið fé jókst um 18% úr 262 milljónum evra og eignir fé um 5% úr 634.
Bein laun námu 110 milljónum evra eða 15,7 milljörðum króna og jukust um 2,5% í krónum talið milli ára, en 8% í evrum. Ársverk voru 1678 og fjölgaði um 58 og meðallaun á mánuði því 780 þúsund krónum, og drógust lítillega saman milli ára.