Íslandssjóðir, dótturfélag Íslandsbanka högnuðust um 280 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 466 milljónir króna á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í árshlutareikningi félagsins.
Þóknanatekjur jukust um 92 milljónir króna á milli ára og námu 1,12 milljörðum króna á tímabilinu. Rekstrargjöld hækkuðu um 3,5% milli ára og námu 680 milljónum króna. Þar af nam launakostnaður 299 milljónir króna og lækkaði um 4% milli ára. Eigið fé Íslandssjóða nam 1.776 milljónum króna í lok júní og var eiginfjárhlutfallið 44,4%.
Í árshlutareikningi segir að starfsemin hafi einkennst af erfiðum aðstæðum á verðbréfamörkuðum sem leiddi til lækkunar á gengi sjóða í stýringu og neikvæðrar afkomu af verðbréfaeign félagsins. Stjórn félagsins gerir ráð fyrir áframhaldandi sveiflum í eignasafni rekstrarfélagsins tengt stríðsátökum í Úkraínu.
Neikvæð afkoma sem nemur 7,1 milljörðum
Alls voru 392 milljarðar króna í eignastýringu hjá Íslandssjóðum í lok júní. Félagið stýrir 22 sjóðum fyrir almenna fjárfesta og var hrein eign þeirra 209 milljarðar króna í lok júní. Afkoma sjóðanna var neikvæð um alls 7,1 milljarða króna, sem endurspeglar markaðsaðstæður á fyrstu sex mánuðum ársins, að því er kemur fram í árshlutareikningi.
Á aðalfundi félagsins sem haldinn var 1. apríl var samþykkt að greiða út arð til hluthafa að fjárhæð 1.028 milljónum króna.
Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða:
„Fyrri hluti ársins einkenndist af krefjandi aðstæðum á innlendum og alþjóðlegum verðbréfamarkaði sem rekja má að mestu leyti til stríðsátaka í Úkraínu og vaxtahækkana í kjölfar þeirra og heimsfaraldurs Covid-19. Rekstur félagsins var stöðugur á tímabilinu og góð eignadreifing í sjóðum og eignasöfnum sannaði gildi sitt enn á ný. Áhersla á ábyrgar fjárfestingar er sífellt að aukast hér á landi og er aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga beitt við stýringu allra okkar sjóða og eignasafna.“