Samanlagt nam hagnaður þeirra 30 samlags- og sameignarfélaga á sviði lögfræðiþjónustu sem greiddu mestan tekjuskatt árið 2023 hátt í 1,9 milljörðum króna. Til samanburðar nam hagnaður þeirra 30 félaga sem voru í úttekt Viðskiptablaðsins í fyrra tæplega 1,2 milljörðum og jókst hagnaðurinn þannig um 60% milli ára.
Úttekt Viðskiptablaðsins nær í heild til 400 afkomuhæstu samlags- og sameignarfélaganna í fyrra, byggt á álögðum tekjuskatti og tryggingagjaldi samkvæmt álagningarskrá lögaðila sem Skatturinn birtir.
Stóran hluta aukins hagnaðar lögmannsstofa milli ára má rekja til hagnaðar stærstu lögmannsstofunnar, Logos. Er þetta þriðja árið í röð sem Logos trónir á toppnum en stofan greiddi 472 milljónir króna í tekjuskatt í fyrra.
Í næstu þremur sætunum á eftir koma lögmannsstofurnar Juris, Landslög og Fulltingi, sem högnuðust allar um meira en hundrað milljónir. Um er að ræða stofur með þó nokkra starfsemi en launagreiðslur fjögurra stærstu félaganna námu hátt í 2,2 milljörðum.
Á listanum eru sömuleiðis minni lögmannsstofur eða jafnvel félög einstakra lögmanna. Má þar til að mynda nefna VHV lögmannsþjónustu, sem er í eigu Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, Reykvíska lögmenn, sem er í eigu Sveins Andra Sveinssonar, og Kötlu lögmenn, sem er í eigu Lilju Margrétar Olsen.
Úttektin sem birtist í Viðskiptablaðinu í morgun nær til 400 félaga í níu flokkum. Áskrifendur geta nálgast listana í heild hér.
Taka skal fram að í úttekt Viðskiptablaðsins er ekki tekið tillit til yfirfæranlegs taps frá fyrri árum – sem draga má frá skattstofni – né lægra skatthlutfalli tekna af arðgreiðslum, enda liggja upplýsingar um slíkt ekki fyrir.