Motus, dótturfélag Greiðslumiðlunar Íslands, hagnaðist um 8,2 milljónir á síðasta ári. Til samanburðar hagnaðist félagið um rúmar 200 milljónir árið 2020 og dróst hagnaðurinn því verulega saman á milli ára.

Í ársreikningi segir að faraldurinn hefði haft tímabundin áhrif á rekstur og fjárhag félagsins í formi lægri innheimtutekna. Eignir Motus námu 1.437 milljónum á síðasta ári og jukust um tæp 50% á milli ára.

Eigið fé í árslok nam 212 miljónum króna samanborið við 364 milljónir á síðasta ári, en stjórn félagsins leggur til að ekki verði greiddur arður til hluthafa á árinu 2022. Brynja Baldursdóttir er forstjóri Motus, en hún tók við um mitt ár í fyrra.

Fréttin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.