Fasteignafélagið Reitir hagnaðist um 2,64 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við 861 milljónir á sama ársfjórðungi í fyrra. Þrefaldaðist hagnaðurinn því á milli ára. Þetta kemur fram í árshlutareikningi félagsins.
Hreinar leigutekjur jukust um 21% á milli ára og námu 2,4 milljörðum. Rekstrarhagnaður Reita var um 5,8 milljarðar, þar af var 60% af rekstrarhagnaðinum tilkominn vegna matsbreytinga.
Eftir fyrsta ársfjórðung voru horfur félagsins hækkaðar og gert ráð fyrir á bilinu 13 til 13,25 milljarða króna tekjur á árinu 2022. Auk þess var gert ráð fyrir að rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu yrði á bilinu 8,75 til 9 milljarðar króna á árinu.
Nú er gert ráð fyrir að tekjur ársins verði á bilinu 13,15 til 13,4 milljarðar króna og að rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu verði á bilinu 8,9 til 9,15 milljarðar.
Sé litið til fyrstu sex mánuði ársins hagnaðist félagið um 4,764 milljónir króna, sem er um 21% aukning á milli ára. Rekstrarhagnaður Reita á fyrri hluta árs nam rúmlega 10 milljörðum króna, en þar af nam matsbreyting fjárfestingareigna 5,8 milljörðum.
Sjá einnig: Byggja 90 þúsund fermetra á Blikastöðum
Í tilkynningu segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, að væntingar standi til þess að gatnagerð á atvinnusvæðinu í landi Blikastaða, sem hefur fengið nafnið Korputún, hefjist á næsta ári og uppbygging fljótlega í kjölfarið.
Jafnframt eru miklar framkvæmdir yfirstandandi á þriðju hæð Kringlunnar. „Verið er að endurnýja bíóið og setja upp lúxussal. Þá hafa verið gerðir samningar við nýja og vinsæla veitingastaði á þriðju hæð Kringlunnar,“ segir Guðjón í tilkynningu.
Guðjón Auðunsson, forstjóri:
„Rekstur Reita gengur vel og afkoma er í takti við væntingar og áður útgefnar áætlanir. Hækkandi verðlag er farið að setja svip sinn á bæði rekstur og efnahag. Nýtingarhlutfall eignasafnsins er um 97,5% af tekjuberandi eignum. Hlutfallið endurspeglar heilbrigða eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði á markaði. Jafnframt hefur innheimta verið góð undanfarna mánuði. Þá hefur fjöldi leigusamninga verið gerður síðustu misseri, bæði endurnýjanir og nýir samningar.“