Íslenska gagnaversfyrirtækið Borealis Data Center, sem áður hét Etix Everywhere Borealis, var að mestu leyti selt til erlendra fjárfesta á síðasta ári, en Core Infrastructure III Sarl, félag í eigu franska fjárfestingasjóðsins Vauban Infrastructure Partners, keypti 92,18% hlut í íslenska félaginu. Íslensk félög fóru með 37% hlut í Borealis, en söluhagnaður eignarhaldsfélaganna liggur nú fyrir.

Björn Brynjúlfsson, framkvæmdastjóri Borealis, fór í árslok 2020 með 5,66% hlut í Borealis undir eigin nafni. Þar að auki átti hugbúnaðarfyrirtækið Impulse ehf., félag sem Björn leiðir, 6,37% hlut. Impulse bókfærði hagnað vegna sölu á 2,23% hlut til Vauban á 720 milljónir króna. Félagið, sem er í eigu Björns og fjölskyldu hans, á enn 4,14% hlut í Borealis. Þá á annað félag sem Björn leiðir, D23 ehf., 3,68% hlut í félaginu. Félög sem Björn leiðir eiga því 7,82% hlut í Borealis, samanborið við 12,03% fyrir söluna.

Tvö félög sem Gísli Hjálmtýsson fjárfestir leiðir fóru með umtalsverðan hlut í Borealis í árslok 2020, það eru Brú Venture Capital (Brú) og Íslenskt hugvit. Brú átti 11,6% hlut og Íslenskt hugvit 5,10% hlut. Þess má geta að Íslenskt hugvit á 20% hlut í Brú.

Söluhagnaður þessara tveggja félaga í eigu Gísla nam samtals um 5 milljörðum króna samkvæmt ársreikningum félaganna. Þar af var hagnaður Brúar af viðskiptunum 3,5 milljarðar en hagnaður Íslensks hugvits tæpir 1,5 milljarðar.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.