Landsframleiðsla nam 913,3 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi 2022 og jókst um 6,1% að raungildi borið saman við sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Á föstu verðlagi mælist landsframleiðslan nú um 0,5% meiri að raungildi en hún var á sama tímabili árið 2019. Þannig er áætlað að landsframleiðslan fyrstu sex mánuði ársins hafi vaxið um 6,8% að raungildi borið saman við landsframleiðslu fyrstu sex mánuði ársins 2021.

Hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi var einkum drifinn áfram af aukinni einkaneyslu og mikilli aukningu í komum erlendra ferðamanna hingað til lands borið saman við sama tímabil í fyrra. Einkaneyslan jókst að raungildi um 13,5% milli ára sem skýrist að mestu leyti af auknum útgjöldum Íslendinga erlendis.

Halli af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd dróst saman og jókst landsframleiðslan umfram þjóðarútgjöld.

Mikill hagvöxtur á Íslandi í alþjóðlegum samanburði

Samkvæmt nýjustu birtu áætlunum um þróun hagvaxtar í löndum innan Evrópusambandsins og í Bandaríkjunum mælist hagvöxtur hér á landi talsvert meiri en í samanburðarlöndunum. Innan evrusvæðisins er áætlað að árstíðarleiðrétt landsframleiðsla hafi aukist um 3,9% að raungildi borið saman við sama tímabil fyrra árs, 1,6% í Bandaríkjunum en um 7,3% á Íslandi, að því er kemur fram á vef Hagstofunnar.

Borið saman við fyrri ársfjórðung, árstíðarleiðrétt, er áætlað að landsframleiðsla innan evrusvæðisins hafi aukist um 0,6% að raungildi en á sama mælikvarða er 0,2% samdráttur áætlaður í Bandaríkjunum en 3,9% vöxtur á Íslandi. Í öllum tilvikum er um að ræða fyrstu árstíðaleiðréttar bráðabirgðatölur sem hagstofur viðkomandi ríkja hafa birt á undanförnum vikum og eru þær settar fram með hefðbundum fyrirvörum.