Árshlutareikningur borgarinnar sýnir neikvæða rekstrarniðurstöðu A-hluta upp á tæpa 8,9 milljarða króna, sem er rúmum fjórum milljörðum lakari niðurstaða en áætluð hafði verið. Tekjur voru 2% hærri en gert hafði verið ráð fyrir en rekstrarútgjöld voru um 4,4%, tæpum 3,4 milljörðum, yfir fjárheimildum.

Heildarniðurstaða Reykjavíkurborgar vegna málefna fatlaðs fólks var neikvæð um 5,4 milljarða króna, eða um 673 milljónum yfir fjárheimildum. Halldóra Káradóttir, sviðsstjóri fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar, segir mikinn halla í rekstri málaflokks fatlaðra vera gegnumgangandi á meðal sveitarfélaga.

„Hluti af útsvarinu er greiddur inn í jöfnunarsjóð sem á að standa undir rekstrinum á málaflokki fatlaðs fólks. Þjónustukröfurnar eru miklar og útgjöldin þar af leiðandi líka. Sveitarfélögin eru því að leggja miklu meiri fjármuni í þjónustuna en þau fá greitt úr jöfnunarsjóði."