Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans tilkynnti í dag um að lækkað yrði hámarks veðsetningahlutfall fasteignalána til neytenda úr 85% í 80%. Hámarkshlutfall fyrir fyrstu kaupendur verður hins vegar óbreytt í 90%. Í yfirlýsingunni segir að hækkandi fasteignaverð hafi farið saman við aukna skuldsetningu heimila og því sé þessi aðgerð til þess fallin að vernda viðnámsþrótt lántaka og lánveitenda ásamt því að vinna gegn aukningu kerfisáhættu.
Nefndin hefur ákveðið að hækka ekki sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki að svo stöddu og er aukinn því óbreyttur í 0%. Nefndin telur þó líklegt að fyrr en síðar verði að taka til skoðunar að hækka aukann á nýjan leik.
Fella brott tilmæli um arðgreiðslur
Fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabankans hefur ákveðið að fella brott tilmæli sín, sem átti að gilda út september næstkomandi, um arðgreiðslur fjármálafyrirtækja og kaup þeirra á eigin hlutabréfum.
„Nefndin brýnir þó fyrir fjármálafyrirtækjum, sem og vátryggingafélögum, að gæta áfram ýtrustu varfærni við ákvörðun um útgreiðslu arðs og gerð áætlana um kaup á eigin hlutabréfum,“ segir í yfirlýsingu fjármálaeftirlitsnefndarinnar.
Nefndin segir að útlit sé fyrir að áhrif kórónaveirufaraldursins á fjármálafyrirtæki verði minni en óttast var í upphafi árs, „m.a. vegna aðgerða stjórnvalda í efnahagsmálum“. Staða kerfislega mikilvægu bankanna sé sterk, eiginfjár- og lausafjárstaða þeirra vel yfir lögbundnum gjaldmiðlum og þeir hafi greiðan aðgang að lausu fé.
Fjármálaeftirlitsnefndin sendi frá sér yfirlýsingu í apríl 2020 þar sem nefndin tók undir tilmæli Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar um fjármálafyrirtæki skyldu ekki greiða út arð eða kaupa eigin hlutabréf í því skyni að viðhalda sterkri eiginfjárstöðu.
Í janúar síðastliðnum lýsti fjármálaeftirlitsnefndin því yfir að áfram ríkti mikil óvissa um þróun efnahagsmála. Nefndin lagði áfram áherslu á að fjármálafyrirtæki skyldu sýna fyllstu varfærni varðandi eiginfjárstöðu þeirra. Var þeim tilmælum beint til fjármálafyrirtækja að hafa tiltekin atriði að leiðarljósi við ákvarðanir um útgreiðslu arðs og kaup á eigin hlutabréfum. Skyldu tilmælin gilda til 30. september 2021.