Heimild Landsnets til eignarnáms réttinda vegna lagningar Suðurnesjalínu 2 í landi þriggja jarða í Sveitarfélaginu Vogum stendur en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm nú fyrir stundu þar sem kröfum landeigenda var hafnað.

Umræddir landeigendur höfðuðu mál gegn Landsneti og íslenska ríkinu eftir að umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið heimilaði eignarnám á jörðunum í fyrra. Landsnet hafði áður lokið samningum við alla aðra landeigendur á línuleiðinni og rúmlega 300 milljónir króna greiddar í bætur til þeirra.

Niðurstaðan kemur ekki á óvart enda hefur Suðurnesjalína 2 farið í gegnum mikla og vandaða vinnu ásamt samtali og samvinnu við hagsmunaaðila á svæðinu. Matsnefnd eignarnámsbóta hefur þegar úrskurðað um fjárhæð eignarnámsbóta vegna framkvæmdarinnar og er það von okkar hjá Landsneti að aðilar uni við afdráttarlausa niðurstöðu héraðsdóms og að málinu sé lokið, segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, um niðurstöðuna.

Málið var í flýtimeðferð hjá dómstólum og var dómsuppkvaðning líkt og áður segir í dag. Matsnefnd eignarnámsbóta kvað upp úrskurð í þremur aðskildum málum landeigendanna í lok nóvember sl. en nefndin heimilaði eignarnámið og lagði mat á bætur vegna þessa.

Um var að ræða spildur á þremur jörðum í Sveitarfélaginu Vogum en nefndin taldi að hæfilegar bætur til landeigendanna yrðu samtals tæplega 130 milljónir króna, þar af ríflega 105 milljónir til þriggja landeiganda sem eiga samanlagt 34% jarðarinnar Heiðarlands Vogajarða.

Mun Landsnet nú fara í uppsetningu á möstrum en stefnt er á að taka línuna í rekstur í haust, að því gefnu að allt gangi upp. Framkvæmdir á þeim svæðum þar sem leyfi lágu fyrir eru í fullum gangi og miðar þeim vel samkvæmt upplýsingum frá Landsneti. Önnur sending mastra fyrir línuna er þá komin til landsins frá Spáni og eru bíða í Kúagerði eftir að taka sér stöðu í hrauninu við hlið Suðurnesjalínu 2.

Suðurnesjalína 2 verður alls 29 kílómetra löng með 87 möstrum og mun hún liggja frá Hamranesi í Hafnarfirði að nýrri spennistöð á Njarðvíkurheiði, samkvæmt upplýsingum úr úrskurði matsnefndar í nóvember. Landeigendurnir sem sömdu ekki við Landsnet eiga spildur á þremur jörðum í Sveitarfélaginu Vogum; Heiðarlandi Vogarjarða, Landakoti og Stóra Knarranesi I.

Framkvæmdir í verkefnastofninum Hafnarfjörður - Suðurnes eins og þær voru kynntar fyrir Vogum haustið 2022.

Landsnet stefnir skv. umræddum úrskurði á að leggja um land jarðarinnar Heiðarlandi Vogajarða 4.504 metra langa 220 kV rafmagnslínu ásamt því að reisa 14 stauravirki í landinu, nánar tiltekið 13 burðarmöstur og eitt hornmastur, til að bera línurnar uppi. Um land jarðarinnar Landakot verður lögð 419 metra löng lína og eitt burðarmastur reist og um land jarðarinnar Stóra Knarranes I verður lögð 454 metra löng lína og tvö burðarmöstur reist.

Sextán ára þrautaganga

Framkvæmdunum er ætlað að bæta afhendingaöruyggi raforku á Suðurnesjum en Suðurnesjalína 1 er eina línan sem flytur raforku frá höfuðborgarsvæðinu til Suðurnesja.

Fyrirtæki á svæðinu kölluðu eftir tafarlausri byggingu Suðurnesjalínu 2 í tölublaði Víkurfrétta árið 2023.
Fyrirtæki á svæðinu kölluðu eftir tafarlausri byggingu Suðurnesjalínu 2 í tölublaði Víkurfrétta árið 2023.

Þegar línan slær út leiðir það nær undantekningarlaust til straumleysis á Suðurnesjum, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á heimili og fyrirtæki.

Árið 2023 gáfu t.a.m. fyrirtæki á Reykjanesi út neyðarkall með auglýsingu í tölublaði Víkurfrétta. Þá sagði Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, í samtali við Viðskiptablaðið sama ár að fleiri fyrirtæki myndu vilja starfa á Suðurnesjum en að raforku vanti til starfseminnar.

Undirbúningur við Suðurnesjalínu 2 hefur staðið yfir í á annan áratug en umhverfismat vegna framkvæmdanna var samþykkt með skilyrðum árið 2009 og kynnti Landsnet öllum landeigendum um framkvæmdaáform sín vorið 2011.

Þremur árum síðar veitti Orkustofnun leyfi fyrir byggingu og rekstri línunnar og lágu skömmu síðar fyrir framkvæmdaleyfi frá sveitarfélögunum Grindavík, Hafnafjarðarbæ, Reykjanesbæ og Vogum.

Árið 2014 veitti þáverandi atvinnu- og nýsköpunarráðherra þá Landsneti heimild til eignarnáms á fimm jörðum en þá höfðu samningar náðst við fjóra af hverjum fimm landeigendum um 62% lands á væntanlegri línuleið. Matsnefnd eignarnámsbóta lagði þá fram mat á eignarnámsbótum.

Hæstiréttur ógilti þó ákvörðun ráðherrans með dómum í fjórum aðskildum málum þann 12. maí 2016 en dómurinn klofnaði í niðurstöðu sinni þar sem tveir af fimm dómurum töldu að staðfesta ætti niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem Landsnet og ríkið var sýknað af kröfum landeigenda.

Landsnet brást við þeim dómi með því að leggja fram valkostaskýrslu sem innihélt samanburð á loftlínu- og jarðstrengjakostum en fyrirtækið hafði þá fundað með fulltrúum landeigenda í Vogum sem áttu aðild að eignardómsmálunum. Að lokum var ákveðið að halda aðalvalkostinum óbreyttum, þ.e. með loftlínu með fram Suðurnesjalínu 1.

Í byrjun árs 2021 höfðu bæjarstjórnir Reykjanesbæjar, Hafnarfjarðar og Grindavíkur samþykkt framkvæmdaleyfi fyrir línuna en bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga hafnaði að veita framkvæmdaleyfi.

Í október sama ár felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ákvörðun Sveitarfélagsins Voga úr gildi. Undir lok árs gagnrýndi Landsnet tafir sveitarfélagsins á afgreiðslu. Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs hjá Landsneti, sagði að undirbúningur við línuna hafi hlaupið á hundruðum milljóna króna og að samfélagslegt tap vegna tapaðra tækifæra hlaupi á milljörðum.

Sumarið 2023 ákvað sveitarfélagið loks að veita Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 en að samhliða yrði unnið að því að leggja Suðurnesjalínu 1 í jörðu.

Nokkur náttúru- og umhverfisverndarsamtök fóru þá fram á að sú ákvörðun yrði felld úr gildi en úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði kröfunni í byrjun árs 2024.

Framkvæmdir við línuna hófust loks að nýju sumarið 2024 á þeim svæðum sem samningar við landeigendur lágu fyrir.