Útgáfufélög Stundarinnar og Kjarnans töpuðu samtals 51 milljón króna eftir skatta árið 2022. Miðlarnir tveir sameinuðust í upphafi þessa árs undir nafni Heimildarinnar og er reksturinn inni í hinu Sameinaða útgáfufélagi, sem hét áður Útgáfufélagið Stundin. Hluthafar Kjarnans eignuðust 37,5% í hinu sameinaða félagi.

Stundin tapaði 39,8 milljónum króna eftir skatta árið 2022 samanborið við 1,2 milljóna tap árið áður. Tekjur útgáfufélagsins jukust um 15% á milli ára og námu tæplega 270 milljónum. Rekstrargjöld jukust um nærri 36% og námu 319 milljónum. Ársverkum fjölgaði úr 12 í 18 á milli ára.

Eignir Stundarinnar voru bókfærðar á 40,9 milljónir í árslok 2022. Þar af var tekjuskattsinneign upp á 10,7 milljónir sem nýtist þó aðeins upp að því marki sem skattskyldur hagnaður myndast í framtíðinni. Eigið fé var neikvætt um 25,4 milljónir.

Kjarninn tapaði 11 milljónum

Tekjur Kjarnans Miðla námu 115 milljónum í fyrra og jukust um 8% frá fyrra ári. Rekstrargjöld jukust um 15% og námu nærri 128 milljónum. Kjarninn tapaði 11 milljónum króna eftir skatta í fyrra.

Eignir Kjarnans voru bókfærðar á um 34 milljónir í lok síðasta árs, en þar af var tekjuskattsinneign upp á 18 milljónir. Bókfært eigið fé Kjarnans nam 14,5 milljónum.

Áskrifendur geta nálgast ítarlegri útgáfu af fréttinni hér. Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.