Þrátt fyrir krefjandi markaðsaðstæður á síðasta ári var fjöldi einstaklinga sem eiga hlutabréf skráð á Nasdaq Iceland hlutabréfamarkaðnum í lok síðasta árs nær óbreyttur frá fyrra ári, eða í kringum 30,5 þúsund.

Þrátt fyrir krefjandi markaðsaðstæður á síðasta ári var fjöldi einstaklinga sem eiga hlutabréf skráð á Nasdaq Iceland hlutabréfamarkaðnum í lok síðasta árs nær óbreyttur frá fyrra ári, eða í kringum 30,5 þúsund.

Þátttaka almennings á hlutabréfamarkaðnum jókst umtalsvert á árunum 2019 til 2022, m.a. vegna lækkunar á stýrivöxtum og fjölgunar félaga í Kauphöllinni. Einstaklingum sem eiga skráð hlutabréf í Kauphöllinni fjölgaði úr 8 þúsund í yfir 30 þúsund talsins á þessu tímabili. Þar munaði hvað mestu um almennt hlutafjárútboð Icelandair í september 2020 og frumútboð Íslandsbanka sumarið 2021.

Forstjóri Kauphallarinnar, Magnús Harðarson, segir að sú staðreynd að fjöldi almennra fjárfesta á íslenska markaðnum hafi haldist óbreyttur í krefjandi markaðsaðstæðum í fyrra sé líklega til marks um að einstaklingar á hlutabréfamarkaði hugsi margir hverjir til lengri tíma við fjárfestingarákvarðanir.

„Þetta sýnir að þeir héldu ró sinni þótt það hafi blásið á móti á mörkuðum á stærstum hluta ársins,“ segir Magnús.

„Einstaklingar eru mjög mikilvægir þátttakendur á markaðnum. Eftir því sem þeir koma inn í ríkari mæli þá verða þeir sífellt mikilvægari fyrir virkni, seljanleika og fjármögnun fyrirtækja á markaðnum. Þeir styðja þannig við og auka áhuga félaga á að fara á markað. Á sama tíma má segja að með því að stuðla að fjölgun skráðra félaga framkalli almenningur fjölbreyttari tækifæri til sparnaðar fyrir sig.“

Fréttin er hluti af ítarlegri umfjöllun um þátttöku einstaklinga á íslenska hlutabréfamarkaðnum sem birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn.