Evran hefur styrkst töluvert undanfarinn mánuð eftir að hafa fallið niður í 1,02 dali í kjölfar sigurs Donalds Trump í bandarísku forsetakosningunum í nóvember.

Fyrir stuttu töldu margir greiningaraðilar að jafngildi evru og Bandaríkjadals væri óumflýjanlegt, en nú hefur stemningin á mörkuðum breyst, samkvæmt Financial Times.

Þessi þróun hefur m.a. verið knúin áfram af fjárhagslegum aðgerðum Þýskalands,sem felast í áformum um hundruð milljarða evra í viðbótarfjármagn til innviða og hernaðar

Á sama tíma hefur dalurinn veikst vegna vaxandi áhyggna af bandaríska hagkerfinu.

Á föstudag náði evran 1,089 dölum, sínu hæsta gildi frá deginum eftir bandarísku kosningarnar. Evran stóð í 1,09 dölum í gærkvöldi.

Sérfræðingar telja nú að Seðlabanki Evrópu (ECB) þurfi ekki að lækka vexti eins mikið og áður var talið.

Eftir vaxtalækkun á fimmtudag gera markaðsaðilar nú ráð fyrir aðeins einni viðbótarfjórðungslækkun á árinu 2025, sem myndi færa innlánsvexti ECB niður í 2,25%. Fyrir viku var markaðurinn að verðleggja lækkun niður í 2% fyrir lok ársins.

Samkvæmt greiningu Jefferies hefur evran náð botni „í bili“ og mun halda áfram að styrkjast á árinu.

„Viðhorfið til evrunnar í upphafi árs 2025 var mjög neikvætt, flestir töldu að hún myndi fara undir 1,00 Bandaríkjadal, en nú er hún á hraðri uppleið,“ sagði Brad Bechtel, sérfræðingur hjá Jefferies.

„Efnahagsaðgerðir Trump hafa ýtt Evrópu í átt að mun frjálslegri ríkisfjármálastefnu en nokkur okkar átti von á,“ segir Adam Pickett, sérfræðingur hjá Citigroup.

Þrátt fyrir þessa þróun vara sumir sérfræðingar við því að ofmeta styrkingu evrunnar.

„Það er enn allt of snemmt að spá varanlegum viðsnúningi,“ segir David Hauner hjá Bank of America. „Markaðurinn hefur aðeins nýlega byrjað að trúa því að dalurinn veikist og það getur breyst með einni fyrirsögn.“

Á meðan evran styrkist er verðbólga enn í brennidepli í Bandaríkjunum. Samkvæmt væntum gögnum sem birt verða á miðvikudag er gert ráð fyrir að verðbólga í febrúar hafi verið 2,9% á ársgrundvelli, sem er yfir 2% markmiði Seðlabanka Bandaríkjanna.

Þetta gæti haft áhrif á væntingar um frekari vaxtalækkanir. Markaðurinn gerir nú ráð fyrir um þremur vaxtalækkunum á árinu 2025, en aðeins tveimur fyrir viku.

Seðlabanki Bandaríkjanna gæti þó þurft að endurskoða áætlanir sínar ef verðbólga reynist þrálátari en búist er við.

Bank of America bendir á að nýir tollar á Kína geti hækkað verð á innfluttum vörum og haft áhrif á kjarnaverðbólgu, sem útilokar sveiflukennda liði eins og matvæli og orku.

Með hækkandi evru og veikara gengi Bandaríkjadals er markaðurinn nú í óvissu um framhaldið.

Þróunin mun ráðast af því hvernig efnahagsaðgerðir Þýskalands skila sér, hvernig Seðlabanki Bandaríkjanna muni bregst við verðbólguþróun og hvort Donald Trump fylgir eftir tollahótunum sínum.

Ef Seðlabanki Evrópu ákveður að vera varkár í vaxtalækkunum gæti það veitt evrunni frekari styrk á komandi mánuðum.