Hlutabréfaverð Icelandair hefur hækkað um meira en 7% í fyrstu viðskiptum dagsins en flugfélagið birti uppgjör eftir lokun markaða í gær. Gengi Icelandair stendur í 1,92 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð en lokagengi félagsins í gær var 1,79 krónur.

Sjá einnig: Icelandair hagnast um hálfan milljarð

Icelandair hagnaðist um 520 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi og var það í fyrsta sinn frá árinu 2017 sem félagið skilar hagnaði á öðrum fjórðungi. „Að skila hagnaði á öðrum ársfjórðungi er stór áfangi á vegferð okkar að koma félaginu í arðbæran rekstur,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningu félagsins.