Hlutabréf í húðvörukeðjunni L'Occitane hafa hækkað um tæp 10% í dag eftir að fregnir bárust um að milljarðamæringurinn og meirihlutaeigandinn Reinold Geiger ætlar að afskrá félagið af markaði.
Geiger á um þriðjung allra hlutabréfa fyrirtækisins sem skráð í kauphöllina í Hong Kong en hann vinnur nú að því að kaupa allt hlutafé félagsins.
L'Occitane er með yfir 3000 verslanir í 90 löndum, meðal annars á Íslandi. Yfir 8,500 manns starfa hjá fyrirtækinu. Gengið hækkaði um 8% í Hong Kong í dag eftir að hafa hækkað um 2% í framvirkum samningum áður en markaðurinn opnaði.
34 milljarða hagnaður í byrjun árs
L'Occitane samstæðan, sem inniheldur einnig húðvörufyrirtækin Elemis og Erborian, hagnaðist um 34 milljarða á fyrstu mánuðum ársins samkvæmt uppgjöri frá 31. mars.
Samkvæmt Bloomberg er Geiger að kaupa hlutaféð á 35 Hong Kong dali á hlut en gengið stendur í 27 HK dölum eins og er. Ef það reynist rétt er markaðsvirði fyrirtækisins um 6,5 milljarðar dala sem samsvarar rúmlega 859 milljörðum íslenskra króna.
Í tilkynningu til verðbréfaeftirlitsins hafna L'Occitane þó að kaupverðið sé svona hátt ef það verður af samningnum án þess þó að gefa upp nákvæmt kaupverð á hlut. Fyrirtækið segir þó að kauverðið yrði aldrei undir 26 HK dölum.