Eftir öflugan nóvembermánuð hafa hlutabréf í Bandaríkjunum byrjað desember á smá lægð. Það breyttist þó í gær en enn og aftur eiga tæknifyrirtækin vestanhafs stóran þátt í að hífa hlutabréfavísitölur upp á við.
S&P 500 vísitalan hækkaði um 0,8% í gær, Nasdaq vísitalan, þar sem tæknifyrirtækin eru þungamiðjan, hækkaði um 1,4% á meðan Dow Jones hækkaði um 0,2%.
Af skráðum félögum S&P 500 vísitölunnar hækkaði Advanced Micro Devices (AMD) langmest eftir að félagið tilkynnti að Meta, Microsoft og Oracle væru öll að ljúka við eða hafa lokið við kaupsamninga um nýta örflögur fyrirtækisins.
Gengi AMD hækkaði um tæp 10% á Nasdaq í gær.
Tæknirisarnir halda áfram að hækka
Hlutabréf í Alphabet, móðurfélagi Google, hækkuðu um 5% í gær eftir að síðarnefnda félagið kynnti nýja gervigreind sem verður aðgengileg fyrir almenning í byrjun næsta árs.
Hlutabréf Amazon og Meta hækkuðu bæði meira en 1,5% á meðan gengi Nvidia, sem hefur hækkað um 226% í ár, fór upp um 2,4% í gær.
Lækkandi ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa vestanhafs er einnig að hafa jákvæð áhrif á hlutabréfamarkaðinn en krafan á tíu ára skuldabréf fór niður í 4,121% en hún var yfir 5% í lok október.
Að mati The Wall Street Journal eru fjárfestar að veðja á að vaxtarhækkunarferli seðlabankans sé lokið.
S&P 500 vísitalan hefur hækkað um 19% á árinu.