Íslensk hlutabréf hafa hækkað töluvert í fyrstu viðskiptum eftir að greint var frá því í gærkvöldi að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði ákveðið að fresta tollum á flest lönd í 90 daga.

Úrvalsvísitalan OMXI15 hefur hækkað um 5,46% frá opnun markaða í morgun.

Alvotech hefur hækkað um 14,5% í 189 milljón króna veltu í morgun á meðan Oculis hefur hækkað um tæp 12,5% í 223 milljón króna veltu.

JBT Marel hefur hækkað um tæp 10% í örviðskiptum á meðan Play hefur hækkað um 9%.

Hlutabréfaverð Amaroq hefur hækkað um rúm 8% á meðan gengi Icelandair hefur hækkað um tæp 7,5%

Þegar þetta er skrifað hafa öll skráð félög hækkað í viðskiptum dagsins. Heildarvelta í kauphöllinni um hálf ellefu var 1,4 milljarðar.

Hlutabréfamarkaðurinn í Bandaríkjunum tók einnig stökk upp á við í gær eftir að Trump frestaði tollunum sínum.

Nasdaq-vísitalan, þar sem tæknifyrirtækin eru þungamiðjan, rauk upp um 12,2% en um að ræða mestu dagsbreytingu hennar frá janúar 2001.

S&P 500 hækkaði um 9,5% á meðan Dow Jones hækkaði um 7,9%, sem er stærsta dagsbreyting vísitölunnar frá árinu 2020.

Uppgangurinn í Dow nam alls 2.963 punktum, sem er stærsta staka hækkun í punktum sem mælst hefur, samkvæmt gögnum frá Dow Jones Market Data.

Heildarmarkaðsvirði bandarískra hlutabréfa jókst um meira en 3 billjónir (e.trillion) dala á nokkrum klukkutímum.