Sigurgeir Jónsson er einn stofnenda bandaríska fjártæknifyrirtæksins Better og yfirmaður fjármálamarkaða hjá félaginu, sem sagt hefur upp meirihluta af tíu þúsund starfsmönnum sínum frá því í desember. Til hefur staðið að Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, verði meðal leiðandi fjárfesta við skráningu félagsins á markað í Bandaríkjunum.
Skráningunni var hins vegar frestað undir lok síðasta árs og síðan hefur meirihluta af um tíu þúsund starfsmönnum félagsins verið sagt upp störfum. Fyrsta uppsagnahrinan vakti heimsathygli þegar, Vishal Garg, forstjóri félagsins, sagði upp 900 manns á Zoom fundi og úthúðaði starfsfólkinu um leið.
Hækkun vaxta í Bandaríkjunum hefur komið illa við félagið sem hafði notið góðs af miklum áhuga bandaríkjamanna að endurfjármagna lán sín á meðan vextir voru í sögulega lágir.
Sjá einnig: Risauppsagnir hjá Better
Sigurgeir hefur starfað í fjármálageiranum í New York frá árinu 2004 . Síðustu ár hefur hann einna helst komið að fjárfestingum í félögum tengdum fjártæknilausnum á húsnæðislánamarkaðnum í Bandaríkjunum.
Samkvæmt skráningarlýsingu félagsins á Sigurgeir 3,6 milljónir hluta í Better, sem eru 36 milljóna dollara virði miðað við gengið 10 dollarar á hlut sem miðað hefur verið við í skráningarlýsingunni. Það samsvarar um 4,6 milljörðum króna. Þó hafa greinendur á fjármálamarkaði vestanhafs haft uppi efasemdir um verðmatið í ljósi fjárhagserfiðleika félagsins síðustu mánuði.
Sigurgeir hefur áður sagt frá því í samtali við Viðskiptablaðið að húsnæðislánamarkaðurinn í Bandaríkjunum hefði orðið út undan í fjártæknibyltingu síðustu ára og í reynd lítið breyst frá því á níunda áratugnum. Þessu hafi Better viljað breyta.
„Til að taka húsnæðislán þarftu að tala við 5-8 manns í síma, senda endalausa tölvupósta, jafnvel fax og ferlið getur tekið einn og hálfan mánuð. Ætli það kosti ekki hálfa milljón króna að búa til eitt húsnæðislán í Bandaríkjunum," sagði Sigurgeir í viðtali við Viðskiptablaðið árið 2019.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .