Baldvin Már Hermannsson, forstjóri flugfélagsins Atlanta, segir það geta verið afar takmarkandi að vera einungis með flugrekstrarleyfi á Íslandi. Sérstaklega fyrir leiguflugfélag eins og Atlanta.
„Þrátt fyrir góðan vilja og frábæran mannauð í flugi hér á Íslandi, þá eru líka takmörk fyrir því hvað hægt er að að gera héðan,“ segir Baldvin í ítarlegu viðtali í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. „Við höfum ekki alltaf sömu tækifæri og til að mynda önnur evrópsk félög."
„Við erum sem dæmi með stóran flota af Boeing 747 fraktvélum, sem við getum ekki flogið frá Kína til Evrópu eða Kína til Bandaríkjanna ef við erum bara með íslenskt flugrekstrarleyfi. Þar með er búið taka út afar stórt markaðssvæði fyrir þessar öflugu fraktvélar, sem eru í raun hannaðar til þessa að fljúga þessa löngu flugleggi.“
Tekur tíma
Baldvin segir íslensk flugfélög heldur ekki alltaf njóta sömu flugréttinda og flugfélög innan Evrópusambandsins, jafnvel þó Ísland sé í EES.
„Þetta er ástæðan fyrir því að við stofnuðum félagið á Möltu. Við erum að byggja það félag hratt og örugglega upp, það gengur vel en þetta tekur allt tíma, leyfisveitingar og þess háttar. Afraksturinn er hinsvegar sá að Atlanta er nú komið í samstarf við stórt kínverskt fyrirtæki og stefnan er sett á að opna gátt á milli Kína og Ungverjalands á næstu mánuðum. Þetta væri ómögulegt að gera ef ekki væri fyrir flugrekstrarleyfið á Möltu.“
5% tekna renna í ríkiskassann í Sadi-Arabíu
„Annað þessu tengt. Við stóðum frammi fyrir því 2019 að takmarkaður fjöldi tvíhliða alþjóðasamninga, til að mynda hvað varðar tvísköttun, var farinn að há félaginu. Sem dæmi var enginn tvísköttunarsamningur milli Íslands og Sádi-Arabíu, sem var okkar stærsta markaðssvæði fyrir fáeinum árum þegar um 70% af okkar tekjum komu vegna farþegaflugs þar. Þetta þýddi að 5% af tekjum Atlanta fóru til hins opinbera í Sádi-Arabíu í formi afdráttarskatts. Þetta er gríðarlega mikið þegar haft er í huga að hagnaðarhlutfall hjá flugfélögum er oft og tíðum 2 til 4%.“
„Þetta hefur að sjálfsögðu áhrif samkeppnishæfni félagsins því enginn af okkar samkeppnisaðilum, sem eru stórir alþjóðlegir aðilar, þurfa að greiða sambærilega skatta vegna þess að þeirra lönd hafa slíka tvísköttunarsamninga. Þetta stuðlaði ennfremur að stofnun nýs flugrekstarleyfis á Möltu, þar sem umgjörð fyrir leiguflugfélög er afar góð þar. Við erum hinsvegar vongóð um að það verði kominn á samningur við Sádi-Arabíu árið 2026, sem gæti þá opnað á viðskipti frá Íslandi aftur”.