Aðgerðaráætlunin Brú til betri vegar, sem kynnt var í vor eftir að greint var frá miklum erfiðleikum í rekstri Sveitarfélagsins Árborgar, nær bæði til skemmri og lengri tíma.

„Við höfum, öll bæjarstjórnin, unnið þetta saman og sett okkur markmið til að ná tökum á fjármálunum. Fyrst og fremst að auka tekjur, lækka rekstrargjöld, endurskoða efnahagsreikninginn og draga úr fjárfestingum,“ segir Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, bæjarstjóri Árborgar.

Undanfarna mánuði hefur vinnan verið að rýna rekstur grunnskólanna og er verið að fara af stað með slíka vinnu inn í leikskólana, enda taka skólarnir til sín langmesta fjármagn sveitarfélagsins. Markmiðið er að hámarka nýtingu fjármagnsins en tryggja áfram góða þjónustu.

„Við erum með áætlun sem mér sýnist vera að ganga mjög vel eftir og tölurnar að standast, og svo er það bara áframhaldandi verkefni að rýna,“ segir Fjóla.

Viðskiptablaðið hefur greint frá því að í mörgum sveitarfélögum, þar á meðal Árborg, hefur fjölgun stöðugilda verið umfram íbúafjölgun. Frá árinu 2010 til ársins 2022 hefur íbúum Árborgar fjölgað um 49% en stöðugildum hefur fjölgað um 80%. Íbúum fjölgaði þó hraðar en stöðugildum árið 2022 og fyrri hluta árs 2023.

„Við erum alltaf að skoða hvert einasta stöðugildi og vinna með það. Ef fólk er til dæmis að hætta sökum aldurs skoðum við hvort hægt sé að einfalda eða nýta tæknina betur, erum svolítið gagnrýnin og skoðum hvert og eitt tilfelli fyrir sig.“

Hvað fjárfestingar varðar gerir aðgerðaráætlunin ráð fyrir að fjárfest verði fyrir um það bil 1,5 ma.kr. að jafnaði til ársins 2026. Að sögn Fjólu voru þau þegar komin langt í innviðafjárfestingu og því er geta til að taka við töluvert fleiri íbúum áður en nauðsynlegt er að fara í frekari fjárfestingar.

„Við erum núna að byggja Stekkjaskóla, sem er stærsta fjárfesting okkar. Þegar við erum að tala um og greina innviðina er gríðarleg geta í þeim skóla, en auðvitað þurfum við að horfa áfram til næstu uppbyggingar og vera tilbúin með hvað við ætlum að gera næst. En eins og staðan er núna þolum við alveg töluverða fólksfjölgun.“

Nánar er rætt við Fjólu í Viðskiptablaðinu, sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.