Sprotafyrirtækið Icewind fékk í vikunni nokkur hundruð milljóna króna Horizon 2020 SME Instruments styrk frá Evrópusambandinu til þróunar og framleiðslu á litlum vindmyllum. Fyrirtækið vakti athygli fyrir nokkru þegar það kom fyrir vindmyllum uppi á strætóskýlinu við Hörpu. Töluvert vatn hefur runnið til sjávar síðan. Fyrstu vindmyllur fyrirtækisins eru hugsaðar til að knýja sumarbústaði sem oftar en ekki eru kyntir með rafmagni. Nýjustu vindmyllur Icewind eru hugsaðar fyrir fjarskiptamöstur úti í heimi, en um fjórðungur þeirra er á svæðum sem ekki eru tengd við dreifikerfi rafmagns og því knúin dísilrafmagni.

Sæþór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri og einn stofnenda fyrirtækisins, segir styrkinn skipta sköpum fyrir fyrirtækið, en umsóknarferlið hafi verið langt, strangt og kostnaðarsamt. Icewind fékk verkefnastyrk frá Rannís 2014 og aftur í lok árs 2016. „Við byrjuðum að sækja um styrkinn frá Evrópusambandinu haustið 2016. Þetta er alveg svakalega langt og tímafrekt ferli,“ en verkefnið hefur verið aðalstarf Sæþórs frá árinu 2014. Núna starfa þrír hjá fyrirtækinu en Sæþór vonast til að þeir verði orðnir sex á árinu. „Svo erum við líka að leita að fjárfestum.“

Nýjasta vindmylla Icewind er mestmegnis búin til úr áli og koltrefjum og vegur ekki nema um tuttugu kíló. Þyngdin skiptir að sögn Sæþórs miklu máli þegar vindmyllan er komin í einhverja hæð á fjarskiptamastri og því allt gert til að hafa hana sem léttasta. „Þessi markaður er brjálæðislega stór og mjög fáar lausnir í boði. Við setjum því allt okkar púður í það.“ Vindmyllan getur framleitt um 100 til 150 vött í tíu metrum á sekúndu og kostar fjöldaframleidd á bilinu 200 til 250 þúsund krónur. Í miklum vindi getur hún framleitt jafnvel tvöfalt til þrisvar sinnum meira, en túrbínurnar eru hannaðar fyrir erfiðar aðstæður og vind upp á allt að 60 m/s.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

 • Forstjóri Advania segir starfsfólk hafa sagt sig úr VR þegar allherjarverkfall var í kortunum
 • Lokakaflinn í söluferli Arion banka er að hefjast
 • Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins kallar eftir heildstæðri atvinnustefnu
 • Hagnaður Kauphallarfélaganna dregst töluvert saman milli ára
 • Líkur eru til þess að afkoma í sjávarútvegi hafi versnað á árinu 2017
 • Nýtt frumvarp stjórnarandstöðuþingmanna kæmi í veg fyrir arðgreiðslur með öðru en peningum
 • Ítarlegt viðtal við Garðar Má Birgisson, viðskiptastjóra tæknifyrirtækisins Þulu
 • Snjallsímaframleiðendur kynntu nýjar vörur í Barcelona í liðinni viku
 • Stórir hópar eru í námi til löggildingar fasteignasala
 • Viðtal við Finn Sveinbjörnsson, nýjan framkvæmdastjóra bankasviðs Fjármálaeftirlitsins
 • Óðinn er á sínum stað og fjallar um sykurskatta
 • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um vantrauststillöguna á dómsmálaráðherra