Hvalur hf., stærsti hluthafi Hampiðjunnar, tók þátt í nýafstöðnu hlutafjárútboði veiðafæraframleiðandans sem lauk á föstudaginn. Hvalur fékk úthlutað um 4,2 milljónum hluta og var kaupverð félagsins 547,5 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar en Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, situr í stjórn Hampiðjunnar.
Hvalur er stærsti hluthafi Hampiðjunnar og var með um 41,5% hlut fyrir útboðið. Eftir kaup félagsins í útboðinu á Hvalur nú 232,9 milljónir hluti í Hampiðjunni sem samsvarar 36,6% eignarhlut eftir hlutafjárhækkunina. Markaðsvirði eignarhlutar Hvals nemur 30,3 milljörðum króna miðað við 130 króna útboðsgengið í bók B.
Í útboðslýsingu Hampiðjunnar var upplýst um að Hvalur hygðist skrá sig fyrir yfir 5% af þeim hlutum sem boðnir voru til sölu í útboðinu. Endanleg úthlutun til Hvals samsvarar 4,95% af hlutafjáraukningunni.
Þá tók Kristján þátt í útboðinu í eigin nafni líkt og til stóð samkvæmt útboðslýsingu. Hann keypti sjálfur um 167 þúsund hluti á genginu 120 krónur fyrir rétt tæplega 20 milljónir króna. Í útboðslýsingu var kveðið á um að horft yrði til þess að skerða ekki áskriftir starfsmanna í bók A.
Hampiðjan sótti alls um 10,9 milljarða króna í hlutafjárútboðinu. Um 3.700 áskriftir bárust fyrir um 32,3 milljarða sem samsvarar þrefaldri eftirspurn. Útboðsgengi í áskriftarbók B, fyrir tilboð yfir 20 milljónir króna, endaði í 130 krónum á hlut eða 8,3% yfir lágmarksverði sem Hampiðjan hafði sett í þeim flokki.
Hjörtur og aðrir stjórnendur tóku þátt
Auk Kristjáns tóku tveir aðrir stjórnarmenn Hampiðjunnar, þau Guðmundur Ásgeirsson og Sigrún Þorleifsdóttir, þátt í útboðinu. Guðmundur keypti fyrir um 20 milljónir króna og Sigrún fyrir 3,6 milljónir.
Í Kauphallartilkynningu Hampiðjunnar eru einnig gefnar upp upplýsingar um þátttöku fimm stjórnenda innan samstæðunnar.
Meðal þeirra er forstjórinn Hjörtur Erlendsson en hann skráði sig fyrir hlutum að fjárhæð 32 milljónir króna. Samkvæmt útboðslýsingu Hampiðjunnar átti Hjörtur engan hlut í félaginu fyrir útboðið.