Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segist munu beita sér fyrir breytingum á áformum forsætisráðherra um setningu heildarlaga um rýni á beinum erlendum fjárfestingum með tilliti til þess hvort þær samræmist þjóðaröryggi og allsherjarreglu. Hún hyggst setja í gang vinnu við heildstæða úttekt á fjárfestingarumhverfi nýsköpunar með það fyrir augum að dregið verði úr hömlum og hindrunum.

Áformin hafa mætt verulegri gagnrýni, meðal annars úr íslenska sprota- og nýsköpunarsamfélaginu. Gagnrýnt hefur verið að ekki hafi verið framkvæmt neitt mat á efnahagslegum áhrifum slíkrar fjárfestingarýni, þ.e. hvort hún gæti haft fælandi áhrif á erlenda fjárfestingu. Hlutfall beinnar erlendrar fjárfestingar inn í landið af vergri landsframleiðslu var um 30% í fyrra, en til samanburðar var hlutfallið 56% að meðaltali innan OECD og 48% í heiminum öllum.

Þurfum erlent fjármagn

Áslaug Arna segist leggja áherslu á að útfærsla þessara áforma megi ekki draga úr áhuga eða fæla erlenda fjárfesta frá fjárfestingum í íslenskum fyrirtækjum. „Við þurfum mjög á erlendu fjármagni að halda, ekki síst í nýsköpun og hvers kyns sprotastarfsemi. Nálgunin við þetta viðfangsefni má ekki vera á forsendum ótta og hræðslu,“ segir Áslaug Arna. Þá leggur hún áherslu á að frekar en að draga úr ætti heldur að hvetja til aukinnar erlendrar fjárfestingar, þó að jafnframt séu gerðar ráðstafanir til að tryggja öryggishagsmuni þjóðarinnar. „Það er kjarni málsins að mínum dómi.“

Hún er þeirrar skoðunar að bein erlend fjárfesting sé að mörgu leyti heppilegri fyrir íslenskt efnahagslíf heldur en erlendar lántökur, þó þær séu vitaskuld nauðsynlegar og sjálfsagðar líka. „Erlendur aðili sem hættir fjármagni sínu í íslenskt fyrirtæki til lengri tíma er í rauninni að lýsa yfir stuðningi við íslenskt efnahagslíf með því að vilja taka þátt í og efla atvinnusköpun í landinu.“

Þá nefnir hún að bent hafi verið á þá hættu sem felist í þessari auknu hindrun. „Þetta kemur sér illa fyrir íslensk sprotafyrirtæki sem nú þegar búa við flókið regluverk og takmarkað aðgengi að fjármagni.“

Áslaug Arna er þeirrar skoðunar að æskilegt væri að unnin væri almenn stefnumörkun sem miði að því að örva beina erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi, í ljósi þeirra jákvæðu áhrifa sem af henni leiði fyrir hagkerfið. „Bent hefur verið á að aðeins tvö OECD ríki búi við meiri hömlur á beina erlenda fjárfestingu en Ísland, það er engin ástæða fyrir Ísland að ganga lengra í þessum efnum.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.