Fasteignafélagið Reitir gerir ráð fyrir að hótel að Laugavegi 176, Gamla Sjónvarpshúsinu, opni árið 2024. Reitir gengu til samninga við Hyatt Hotels Corporation um rekstur hótelsins árið 2019 en framkvæmdum við húsið var slegið á frest í árslok 2020, vegna áhrifa Covid-faraldursins á ferðaþjónustugeirann.
Í tilkynningu til Kauphallarinnar segja Reitir að í apríl síðastliðnum hafi verið ákveðið að halda áfram með verkefnið og hefur stjórn fasteignafélagsins staðfest nýja áætlun.
„Fjárfesting Reita í endurbyggingu fasteignarinnar, eins og fyrirhuguð hönnun hennar er nú, er áætluð rúmlega fimm milljarðar króna. Mun sá kostnaður að mestu falla til á árinu 2024 og verður að mestu fjármagnaður með lánsfé.“
Þegar verkefnið var fyrst kynnt árið 2019 kom fram að hótelið verði með 169 herbergi auk allrar tilheyrandi starfsemi, svo sem veitingastað, bar, fundaaðstöðu og heilsurækt.
Fasteignin að Laugavegi 176 hýsti rekstur Ríkissjónvarpsins áður en Sjónvarpið flutti í Útvarpshúsið á Efstaleiti í ágúst 2000.