Fjármálaráðherra hefur boðað frumvarp um breytingu á lögum um tekjuskatt með það að markmiði að einfalda regluverk þegar kemur að erlendri fjárfestingu í íslenskum félögum og þá einkum til að auðvelda fjármögnun í nýsköpun.

Í áformaskjali sem fjármálaráðuneytið birti í byrjun mánaðarins segir að núverandi reglur innihaldi kvaðir sem frumvarpinu er ætlað að létta á í von um að auka fjárfestingu.

Fjármálaráðherra hefur boðað frumvarp um breytingu á lögum um tekjuskatt með það að markmiði að einfalda regluverk þegar kemur að erlendri fjárfestingu í íslenskum félögum og þá einkum til að auðvelda fjármögnun í nýsköpun.

Í áformaskjali sem fjármálaráðuneytið birti í byrjun mánaðarins segir að núverandi reglur innihaldi kvaðir sem frumvarpinu er ætlað að létta á í von um að auka fjárfestingu.

„Markmiðið er að einfalda regluverkið þannig að fjárfesting á Íslandi sé einfaldari, gegnsærri og ekki meira íþyngjandi en reglur nágrannaríkja okkar,“ segir í áformaskjalinu.

„Aukið regluverk og byrðar hér á landi umfram það sem gerist í löndunum í kring leiðir til þess að erlend fjárfesting leitar annað en til Íslands.“

Helstu fyrirhuguðu breytingar á gildandi lögum og reglum snúa að því að fella á brott skilyrði og mögulega skattskyldu. Ráðuneytið segir að til greina komi breyting sem snýr að innlendum skattaðilum, sem myndi hafa óbein áhrif á erlenda fjárfestingu.

Ekki er farið nánar út í hverjar hinar fyrirhuguðu breytingar eru og ráðuneytið á enn eftir að birta frumvarpsdrög. Áréttað er að einstök atriði og útfærslur séu enn til skoðunar. Gert er ráð fyrir að fjárhagsáhrif á ríkissjóð verði óveruleg og gætu mest hlaupið á tugum milljóna á ári en það fari eftir endanlegri útfærslu.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær.